Borgarstjóri biðjist afsökunar

Jón Gnarr borgarstjóri á fundi borgarstjórnar.
Jón Gnarr borgarstjóri á fundi borgarstjórnar. mbl.is/Sigurgeir

Formaður Barnanna okkar, samtaka foreldra leikskólabarna í Reykjavík, fer fram á það við borgarstjóra Reykjavíkur að hann biðji foreldra barna í Reykjavík afsökunar á ummælum sem hann lét falla á fundi borgarstjórnar í gær.

Þetta kemur fram í bréfi sem Rósa Steingrímsdóttir, formaður Barnanna okkar, sendi Jóni Gnarr borgarstjóra og á fjölmiðla.

Í bréfinu segir að það sé gjörsamlega ótækt að borgarstjóri tali niður til kjósenda sinna „þegar þú lýstir því yfir að foreldrar í borginni séu handbendi einhvers eins flokks í borginni (Sjálfstæðisflokksins), og að afstaða þeirra gegn sameiningum menntastofnana sé tilkomin vegna afskipta stjórnmálaflokks í minnihluta,“ segir í bréfinu.

Foreldrar séu fullkomlega færir um að mynda sér skoðun á málefnum barna sinna og hafi hingað til ekki látið stýrast af flokkapólitík um hvað sé börnum þeirra fyrir bestu.

„Þessi ummæli fela í sér að þú teljir foreldra ekki hæfa til að mynda sér skoðun á málinu og að afstaða þeirra endurspegli pólitískt hagsmunapot,“ segir ennfremur.

Þetta sé gróf móðgun við alla foreldra og félög foreldra í borginni og móðgun við þeirra vönduðu umsagnir og ályktanir.

„Ég fer því fram á formlega afsökunarbeiðni þína við foreldra í borginni,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert