„Ef mönnum finnst það lítið að starfsmaður sé að fá eingreiðslu upp á hálfa milljón króna, þá má verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði aldeilis fara að búast við veglegri launahækkun. Ég segi bara ekki meira,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Hann gagnrýnir umfjöllun Samtaka atvinnulífsins um aðdraganda og inntak nýs kjarasamnings starfsmanna Elkem, og segir allt tal um að hann hafi, fyrir hönd VLFA, gefið eftir í kröfugerð sinni. Í umfjöllun SA segir meðal annars að launahækkun á samningstímanum geti orðið allt að 14,7%.
„VLFA samdi við fyrirtækið um eingreiðslu. Þannig að samningurinn er að gefa starfsmönnum, á fyrsta árinu, tæp 17% í hækkun. Þeir eru bara í bullandi vandræðum með þetta,“ segir Vílhjálmur. „Í heildina er þessi samningur okkar að gefa á bilinu 25% til 26% hækkun á samningstímanum. Ég veit að þetta er óþægilegt fyrir SA, að horfa á þessar bláköldu staðreyndir. En þetta er það sem starfsmenn Elkem eru að fá í launahækkanir.“
Hann segir eingreiðsluna sem starfsmenn Elkem fái ekki hafa verið eiginlega hluta af samningnum, en hún sé hins vegar meginforsenda þess að samningar náðust yfir höfuð.
„Auðvitað hrökkva menn við þegar starfsmaður er að fá 500 þúsund krónur í eingreiðslu. En að lesa síðan [frétt SA], þar sem menn eru búnir að kasta þessu upp með þessum hætti - manni bara flökrar við því, vegna þess að þessir menn eru með allt niður um sig í þessum málum. “
Vilhjálmur segir ljóst að allt hafi „orðið vitlaust“ á milli ASÍ og SA í kjölfar samningsins. „Ég held að þeir ættu að fara að einbeita sér að því að reyna að klára kjarasamninga handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði. Það er langur vegur frá því að ég hafi fallið frá einhverjum kröfum, þegar menn standa uppi með 25-26% launahækkun í höndunum, og starfsmenn eru að fá 500 þúsund króna greiðslu með næstu útborgun. Þannig að ég vísa þessu út í hafsauga.“