Hætt er við því að upplausn verði á vinnumarkaðnum ef mál skýrast ekki strax eftir páska. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í leiðara fréttabréfs SA.
Vilhjálmur segir að atvinnuleiðin, sem SA hefur lagt mikla áherslu á að sé eina leiðin út úr kreppunni, strandi á ríkisstjórninni.
Tíminn frá því hlé varð á viðræðum hefur verið notaður til þess að vinna að málum sem þarf að ljúka milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ en örfá slík mál voru enn ófrágengin. Mikilvægt er að ljúka þessum málum vegna þess að atburðarásin gæti orðið mjög hröð ef hreyfing kemst á samningamálin á annað borð strax eftir páska.
Þau mál sem út af stóðu við ríkisstjórnina voru auk sjávarútvegsins, atriði sem snúa að fjárfestingum í orkuframleiðslu og samgöngum og þá var ófrágengið hvernig ríkið stæði að lífeyrismálum. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki fengist til að ræða sjávarútvegsmál efnislega við Samtök atvinnulífsins og samtökin í sjávarútvegnum (LÍÚ/SF). Blasir þó við að þau þarf að leysa með sátt eins og önnur mál.
SA hefur verið legið á hálsi fyrir að taka sjávarútvegsmálin upp í tengslum við kjaraviðræður. Ástæða þess að það er gert er einföld. Sú óvissa sem ríkisstjórnin hefur skapað í sjávarútvegi hefur valdið atvinnugreininni og öllum öðrum sem þjónusta hana miklu tjóni. Einungis minniháttar ákvarðanir eru teknar um fjárfestingar og stórar ákvarðanir um reksturinn eru látnar bíða. Á meðan búa þjónustuaðilar við verkefnaskort og framtíð sjávarbyggða er í ákveðnu uppnámi. Þessu ástandi verður að linna.
Samtök atvinnulífsins og samtök sjávarútvegsins hafa lagt áherslu á að sátt væri nauðsynleg og í stöðugleikasáttmálanum frá júní 2009 var samstaða um að sátt þyrfti að nást og það var ítrekað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í október 2009. Ríkisstjórnin valdi síðan að taka málið úr sáttafarvegi eftir að endurskoðunarnefndin sem fjallaði um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins skilaði niðurstöðu, en þar náðist víðtækt samkomulag um svokallaða samningaleið.
Ríkisstjórninni verður að auðnast að ná sátt í málinu. Engin ríkisstjórn hefur verið jafn nálægt víðtækri sátt um sjávarútvegsmál og því væri bagalegt ef það mistækist. Samtök atvinnulífsins og LÍÚ/SF hafa lagt fram ákveðnar tillögur sem allar eru umsemjanlegar ef það mætti verða til þess að hreyfa málið. Ennþá hefur ríkisstjórnin ekki viljað stíga fram og taka í útrétta sáttahönd samtakanna. En sáttahönd SA og LÍÚ/SF er áfram útrétt og vonandi sér ríkisstjórnin að það er hvorki í þágu sjávarútvegsins né þjóðarinnar að hafa málin í núverandi stöðu.
Hætt er við því að upplausn verði á vinnumarkaðnum ef mál skýrast ekki strax eftir páska. Launafólk bíður óþreyjufullt eftir niðurstöðu og sama gildir um atvinnulífið. Fyrirtækin í landinu tapa stórlega á óvissu og kyrrstöðu í fjárfestingum. Klukkan gengur ekki síður á atvinnulífið en starfsfólkið. Allir tapa.
Besta leiðin er atvinnuleiðin. Á henni græða allir. Með stórauknum fjárfestingum skapast ný störf í bráð og lengd, atvinnuleysi minnkar og tekjur fólks og fyrirtækja aukast. Samtök atvinnulífsins vilja berjast til þrautar fyrir atvinnuleiðinni,“ segir Vilhjálmur.