Hættir sem forseti borgarstjórnar

Jón Gnarr borgarstjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Jón Gnarr borgarstjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Eggert Jóhannesson

Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir hef­ur sagt af sér sem for­seti borg­ar­stjórn­ar. Það ger­ir hún vegna vinnu­bragða meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar við af­greiðslu til­lagna um sam­ein­ingu skóla. Sól­ey Tóm­as­dótt­ir hef­ur einnig sagt af sér embætti vara­for­seta borg­ar­stjórn­ar af sömu ástæðu.

Hanna Birna var kos­in for­seti borg­ar­stjórn­ar á fyrsta fundi borg­ar­stjórn­ar eft­ir kosn­ing­ar á síðasta ári, en hún hafði í kosn­inga­bar­átt­unni talað fyr­ir auknu sam­starfi í borg­ar­stjórn.

„Við telj­um að þessi at­b­urðarrás í kring­um ákvörðun­ina sem tek­in var hér í gær­kvöldi staðfesti að þetta sé full­reynt,“ sagði Hanna Birna í sam­tali við mbl.is og vísaði þar til ákvörðunar meiri­hlut­ans um að sam­eina skóla.

„Við erum þeirr­ar skoðunar að þeir hafi farið gegn öllu því sem við sömd­um um að gera og öll­um þeim vinnu­brögðum sem við ætluðum að reyna að inn­leiða. Við telj­um að þetta sé komið á enda­stöð. Við get­um ekki sætt okk­ur við að ekk­ert hafi verið gert með all­ar þess­ar at­huga­semd­ir sem bár­ust og tæki­færi til að gefa íbú­um tæki­færi til aðkomu að mál­inu hafi ekki verið nýtt,“ sagði Hanna Birna.

Yf­ir­lýs­ing Hönnu Birnu og Sól­eyj­ar

„Und­ir­rituð Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í borg­ar­stjórn hef­ur ákveðið að hætta sem for­seti borg­ar­stjórn­ar og form­lega óskað eft­ir því að kos­inn verði nýr for­seti á næsta borg­ar­stjórn­ar­fundi. Und­ir­rituð Sól­ey Tóm­as­dótt­ir odd­viti Vinstri grænna hef­ur sömu­leiðis ákveðið að hætta sem 1. vara­for­seti borg­ar­stjórn­ar.

Þegar ný borg­ar­stjórn tók við í júní 2010, varð það að sam­komu­lagi milli allra flokka að halda áfram að inn­leiða ný vinnu­brögð og aukið sam­starf í sam­ræmi við yf­ir­lýs­ingu allr­ar borg­ar­stjórn­ar þar sem sagði:

,,Vilji er fyr­ir því hjá ný­kjör­inni borg­ar­stjórn að auka sam­vinnu milli flokka og nýta krafta allra borg­ar­full­trúa í sam­ræmi við vinnu­brögð frá­far­andi borg­ar­stjórn­ar.“

Liður í þessu sam­komu­lagi var að við odd­vit­ar minni­hlut­ans tók­um að okk­ur embætti for­seta borg­ar­stjórn­ar og 1. vara­for­seta, enda væri það tákn­rænt um áfram­hald­andi sam­starf meiri­hluta og minni­hluta. Allt frá því að nýr meiri­hluti tók við hafa full­trú­ar minni­hlut­ans lagt sig fram um að standa við um­rætt sam­komu­lag. Það hef­ur verð gert með því að flytja til­lög­ur um aðgerðir og lausn­ir vegna brýnna hags­muna­mála borg­ar­búa en einnig með til­lög­um um að kalla að borðinu starfs­fólk, fagaðila og íbúa til sam­ráðs. Eins og ít­rekað hef­ur komið fram hef­ur þessi viðleitni minni­hlut­ans þó litl­um ár­angri skilað og meiri­hlut­inn tekið all­ar stór­ar ákv­arðanir án raun­veru­legs sam­ráðs.

Það er mat borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins og Vinstri grænna að með at­kvæðagreiðslunni í gær­kvöldi um mikl­ar breyt­ing­ar á þjón­ustu við börn í skól­um borg­ar­inn­ar sé það full­reynt að til staðar sé nokk­ur raun­veru­leg­ur vilji hjá meiri­hlut­an­um til að ástunda betri vinnu­brögð og auka aðkomu íbúa að lyk­i­lákvörðunum.

Með því að þvinga þess­ar breyt­ing­ar í gegn í and­stöðu við 12.000 íbúa og rúm­lega 90% um­sagna for­eldra og hags­munaaðila, er með ein­hliða vald­boði gengið svo langt gegn vilja borg­ar­búa og fyrr­greindu sam­komu­lagi borg­ar­stjórn­ar að al­gjör trúnaðarbrest­ur hef­ur orðið milli borg­ar­stjórn­ar og borg­ar­búa.

Það eru mik­il von­brigði að meiri­hlut­inn hafi ekki hug­rekki til þess að virkja þátt­töku íbúa og starfs­fólks, auka sam­vinnu minni- og meiri­hluta og inn­leiða þannig ný og betri stjórn­mál,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá Hönnu Birnu og Sól­eyju.

Sóley Tómasdóttir, oddviti VG í borgarstjórn.
Sól­ey Tóm­as­dótt­ir, odd­viti VG í borg­ar­stjórn.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert