Hættir sem forseti borgarstjórnar

Jón Gnarr borgarstjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Jón Gnarr borgarstjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Eggert Jóhannesson

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sagt af sér sem forseti borgarstjórnar. Það gerir hún vegna vinnubragða meirihluta borgarstjórnar við afgreiðslu tillagna um sameiningu skóla. Sóley Tómasdóttir hefur einnig sagt af sér embætti varaforseta borgarstjórnar af sömu ástæðu.

Hanna Birna var kosin forseti borgarstjórnar á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir kosningar á síðasta ári, en hún hafði í kosningabaráttunni talað fyrir auknu samstarfi í borgarstjórn.

„Við teljum að þessi atburðarrás í kringum ákvörðunina sem tekin var hér í gærkvöldi staðfesti að þetta sé fullreynt,“ sagði Hanna Birna í samtali við mbl.is og vísaði þar til ákvörðunar meirihlutans um að sameina skóla.

„Við erum þeirrar skoðunar að þeir hafi farið gegn öllu því sem við sömdum um að gera og öllum þeim vinnubrögðum sem við ætluðum að reyna að innleiða. Við teljum að þetta sé komið á endastöð. Við getum ekki sætt okkur við að ekkert hafi verið gert með allar þessar athugasemdir sem bárust og tækifæri til að gefa íbúum tækifæri til aðkomu að málinu hafi ekki verið nýtt,“ sagði Hanna Birna.

Yfirlýsing Hönnu Birnu og Sóleyjar

„Undirrituð Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hefur ákveðið að hætta sem forseti borgarstjórnar og formlega óskað eftir því að kosinn verði nýr forseti á næsta borgarstjórnarfundi. Undirrituð Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna hefur sömuleiðis ákveðið að hætta sem 1. varaforseti borgarstjórnar.

Þegar ný borgarstjórn tók við í júní 2010, varð það að samkomulagi milli allra flokka að halda áfram að innleiða ný vinnubrögð og aukið samstarf í samræmi við yfirlýsingu allrar borgarstjórnar þar sem sagði:

,,Vilji er fyrir því hjá nýkjörinni borgarstjórn að auka samvinnu milli flokka og nýta krafta allra borgarfulltrúa í samræmi við vinnubrögð fráfarandi borgarstjórnar.“

Liður í þessu samkomulagi var að við oddvitar minnihlutans tókum að okkur embætti forseta borgarstjórnar og 1. varaforseta, enda væri það táknrænt um áframhaldandi samstarf meirihluta og minnihluta. Allt frá því að nýr meirihluti tók við hafa fulltrúar minnihlutans lagt sig fram um að standa við umrætt samkomulag. Það hefur verð gert með því að flytja tillögur um aðgerðir og lausnir vegna brýnna hagsmunamála borgarbúa en einnig með tillögum um að kalla að borðinu starfsfólk, fagaðila og íbúa til samráðs. Eins og ítrekað hefur komið fram hefur þessi viðleitni minnihlutans þó litlum árangri skilað og meirihlutinn tekið allar stórar ákvarðanir án raunverulegs samráðs.

Það er mat borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna að með atkvæðagreiðslunni í gærkvöldi um miklar breytingar á þjónustu við börn í skólum borgarinnar sé það fullreynt að til staðar sé nokkur raunverulegur vilji hjá meirihlutanum til að ástunda betri vinnubrögð og auka aðkomu íbúa að lykilákvörðunum.

Með því að þvinga þessar breytingar í gegn í andstöðu við 12.000 íbúa og rúmlega 90% umsagna foreldra og hagsmunaaðila, er með einhliða valdboði gengið svo langt gegn vilja borgarbúa og fyrrgreindu samkomulagi borgarstjórnar að algjör trúnaðarbrestur hefur orðið milli borgarstjórnar og borgarbúa.

Það eru mikil vonbrigði að meirihlutinn hafi ekki hugrekki til þess að virkja þátttöku íbúa og starfsfólks, auka samvinnu minni- og meirihluta og innleiða þannig ný og betri stjórnmál,“ segir í yfirlýsingu frá Hönnu Birnu og Sóleyju.

Sóley Tómasdóttir, oddviti VG í borgarstjórn.
Sóley Tómasdóttir, oddviti VG í borgarstjórn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert