„Ef þeir hefðu verið einir þarna, og enginn verið yfir þeim, hefði þetta getað farið illa,“ segir Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Hugin VE, um mennina þrjá sem urðu fyrir kolsýringseitrun síðdegis í dag.
Sjálfur var Guðmundur Huginn ekki svæðinu þegar óhappið átti sér stað, en hann kom á vettvang þegar verið var að bera þann sem verst varð úti í land.
„Þetta fór nú betur en á horfðist. Það reddaði því að þarna voru réttir menn á réttum stöðum og þeir gerðu allt rétt. Þeir komu strax með svokölluð flóttatæki og hringdu á Neyðarlínuna.“
Mennirnir voru að störfum í vélarrúmi skipsins þegar óhappið átti sér stað. Svo virðist sem loki haf gefið sig á röri sem hafði verið bilað, með þeim afleiðingum að súrefnið tæmdist úr rýminu sem þeir voru staddir í.
Guðmundur Huginn segir engar skemmdir hafa orðið á vélbúnaði og ekki rétt að tala um að sprenging hafi orðið. Hann reiknar með því að rannsókn fari fram, en veit að svo stöddu ekki hvort eða hvenær það verði.
„Ég veit bara að það er allt í lagi með þá núna,“ segir hann um skipverjana þrjá. „Það átti að fara með einn þeirra til Reykjavíkur, en hann vildi það ekkert.“ Sá missti meðvitund ofan í vélarrúminu og man ekkert eftir óhappinu. Hann vaknaði fljótlega og virtist við þokkalega heilsu.