„Það eru 200.000 til 220.000 ökutæki á skrá í landinu. Miðað við tíu ára endingartíma þyrfti að endurnýja um 20.000 ökutæki á ári til að halda í horfinu hvað meðalaldur bifreiða snertir. Miðað við slíka endurnýjun get ég vel séð fyrir mér að á næstu árum verði komnir á milli 20.000 og 30.000 metanbílar á götur höfuðborgarsvæðisins. Ég held að það sé vel raunhæft,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Metans hf. og SORPU, um möguleika á metanvæðingu bílaflotans á næstu árum.
Áætlað er að framboðið frá Álfsnesi dugi um 4.000 smærri ökutækjum og upplýsir Björn að horft sé til annarra vinnslumöguleika til að anna eftirspurn margfalt fleiri bíla.
„Við erum annars vegar að horfa á möguleika þess að sækja metanið í seyru frá höfuðborgarsvæðinu. Það verkefni er á frumstigi,“ segir Björn en nánar má lesa um þær hugmyndir hér fyrir neðan. „Þá erum við að kanna hagkvæmni þess að reisa gasstöð fyrir um tvo milljarða króna sem ynni metan úr lífrænum úrgangi í Álfsnesi.
Um þessar mundir eru kvaðir um urðun lífræns úrgangs að verða sífellt strangari vegna tilskipunar frá ESB, sem við innleiðum í gegnum EES-samninginn. Þetta er því ekki valkvætt. Einhvern veginn verður að nýta lífræna úrganginn og þetta sýnist okkur vera bæði umhverfisvæn og hagkvæm leið,“ segir Björn og tekur fram að líkt og hugmyndir um vinnslu úr seyru sé hagkvæmnisathugun á umræddri gasstöð enn á frumstigi. Hann segir báða kostina draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim tilfellum sem metanið komi í stað bensíns eða díselsolíu.
„Vinnslan felur bæði í sér sparnað í kaupum á eldsneyti og í útblæstri gróðurhúsalofttegunda en síðari liðinn er ef til vill erfitt að verðmeta á þessu stigi. Hitt er ljóst að þetta myndi kalla á uppbyggingu innlends iðnaðar í kringum landið.
„Metanvinnsla fer þannig fram að eitthvert lífrænt efni, getur verið í raun hvað sem er, er látið brotna niður í súrefnissnauðu umhverfi. Við það verður til lífgas sem er um það bil 60% metan og 40% koldíoxíð ásamt ögnum af öðrum gastegundum, þessi hlutföll eru þó breytileg eftir gerð lífmassans. Metanið er síðan hreinsað svo eftir verður um það bil 95% hreint metan.
Skólpið er hreinsað svo eftir verður lífrænn hluti þess og það svo hrært stöðugt til að virkja gerjunarferlið ásamt því að efninu er haldið við kjörhitastig til að virknin sé sem mest,“ segir Þórður Ingi og bendir á vefinn metan.is þar sem finna megi fjölbreyttar upplýsingar um þennan orkukost.
„Magn lífræns hluta skólps á höfuðborgarsvæðinu liggur ekki nákvæmlega fyrir en sambærilegar rannsóknir erlendis benda til að árlega falli til hið minnsta 30.000 tonn af lífmassa í skólpi á höfuðborgarsvæðinu. Úr því mætti vinna um þrjár milljónir rúmmetra af metangasi, ríflega ígildi þriggja millj. lítra af bensíni,“ segir Þórður Ingi og tekur fram að málið sé á frumstigi. Frekari rannsókna sé þörf til að skera úr um hagkvæmnina.
Ástæðan sé sú að ytra sé metanið mikið notað til rafmagnsframleiðslu með bruna. Á Íslandi megi hins vegar nota gasið á bíla enda sé nóg framboð á hreinni raforku hér til að anna orkuþörf samfélagsins.
Raunhæft er að meirihluti þeirra þrjú til fjögur þúsund býla sem eru í búrekstri á Íslandi í dag geti notað heimatilbúið metan til að knýja ökutæki og búvélar og jafnvel hita upp húsakynnin.
Þetta er mat Jóns Guðmundssonar, sérfræðings hjá Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) í Keldnaholti, sem bendir á að vel sé hægt að nota kúamykju sem hráefni.
„Ég myndi ætla að hvert býli geti sótt um það bil næga orku í eigið metan til að verða sjálfu sér nægt um orku. Rætt er um að kostnaðurinn við þetta yrði á bilinu 10-15 milljónir króna á hvert býli. Þá á ég við orkuna sem þarf til að keyra ökutæki vegna vinnslunnar og önnur landbúnaðartæki. Það er langstærsti liðurinn. Svo væri hægt að nýta orkuna til að hita upp býlin og annað slíkt. Miðað við athugun okkar í LBHÍ virðist þetta geta gengið upp. Það er eftir talsvert miklu að slægjast fyrir bændur. Þótt þetta ráði kannski ekki úrslitum fyrir samfélagið geta býlin sparað sér milljónir króna ár hvert í formi sparaðs eldsneytis og húshitunar. Uppsetning búnaðarins borgar sig því á nokkrum árum. Bændurnir hafa allt til staðar, ef þeir sækja metanið í búfjáráburð. Þeir tapa heldur ekki áburðargildinu úr búfjáráburðinum.“
Jón hugsar sig um og svarar því síðan til að vissulega geti flutningur á hráefnum um langar leiðir kostað verulega orku. Þá geti mikil notkun áburðar til að rækta plöntur sem nýttar séu til vinnslunnar, þegar svo ber undir, dregið úr ávinningnum, enda fari mikil orka í áburðarframleiðslu.
Séu flutningar óverulegir og áburðarnotkunin lítil sé heildarávinningurinn skýr hvað orkuþörf og orkuframboð snertir. „Æskilegast væri ef hægt er að nýta hratið sem áburð og stuðla þannig að hringrás næringarefna og spara bæði orku og draga úr kostnaði,“ segir Jón Guðmundsson líffræðingur.