Matsfyrirtækið Moody's staðfesti í dag óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins, Baa3. Horfurnar eru áfram neikvæðar, að mati fyrirtækisins. Fyrirtækið hafði áður sagt að hafnaði þjóðin Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði það að líkindum neikvæð áhrif á lánshæfismatið.
Rökstuðningur Moody's fyrir því að halda lánshæfismatinu óbreyttu er þríþættur.
Í fyrsta lagi hefur niðurstaða kosninganna ekki áhrif á útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans. Greiðslur til Breta og Hollendinga muni brátt hefjast og útlit fyrir að heimtur almennt verði betri en í upphafi var talið. Þetta þýði að hugsanlegar greiðslur vegna Icesave, sem fallið geti á ríkissjóð, verði lægri en ella.
Í öðru lagi telur Moody's að samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins muni halda. Fimmtu endurskoðun átti að ljúka þann 27. apríl næstkomandi, en á því verði sennilega töf vegna kosninganna. Hins vegar sé ólíklegt að tafir verði á greiðslum frá sjóðnum vegna þessa.
Í þriðja lagi hafa yfirlýsingar nágrannalanda gefið það til kynna að lánasamkomulag verði virt. Þessar lánveitingar séu íslensku efnahagslífi afar nauðsynlegar.
Að þessu sögðu ríkir enn nokkur óvissa um framhaldið, og því horfurnar enn neikvæðar. Hugsanlegt sé að ekki verði skorið úr um álitamál tengd Icesave fyrr en eftir meira en ár. Þá sé óvissa um það hvernig áætlun af afnám gjaldeyrishafta gangi eftir, sem og um fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu.