Mótorhjólatónleikar í Fíladelfíu

Emilía Björg Óskarsdóttir syngur á tónleikunum í dag. Gugga Lísa …
Emilía Björg Óskarsdóttir syngur á tónleikunum í dag. Gugga Lísa söng og lék undir á gítar.

Síðdegis í dag fóru fram svokallaðir Mótorhjólatónleikar í húsnæði Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu. Tónleikarnir settu endapunktinn við dagskrá dagsins sem ætlað er vekja vegfarendur til vitundar um mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni.

Yfirskrift dagsins er „Þín varkárni - öruggari umferð.“

Skapast hefur hefð fyrir því að mótorhjólamenn keyri frá Akranesi til Reykjavíkur á þessum degi. Fyrir fjórum árum síðan var leiðinni snúið við og keyrt ofan af Skaga og til Reykjavíkur, með mótorhjólalögreglu í fylkingarbrjósti. Smám saman hefur bæst í hópinn, þar á meðal sjúkraflutningabíll og bíll frá Landsbjörgu.

Halldór Jónsson, skipuleggjandi dagsins, segir reynt að fá sem flesta sem hafa með umferðaröryggi að gera til þess að taka þátt.

Deginum lýkur formlega með tónleikum í Fíladelfíu, auk þess sem lögreglumaður er fenginn til þess að ávarpa viðstadda og ræða um umferðaröryggi. Ólafur H. Knútsson, varðstjóri umferðardeildar lögreglunnar, hélt stutt erindi á milli atriða í dag.

Halldór segir þetta gert til þess „að leyfa öllum að sjá að [lögreglumenn] eru ekki einhverjir óvinir okkar á götunni. Þeir vilja okkur vel og vilja að við keyrum og hjólum vel - að allt sé slysalaust.“

Um er að ræða samvinnuverkefni allra þeirra sem koma að umferðaröryggi. Þar á meðal mótorhjólaklúbba, umferðarlögreglunnar, sjúkraflutningamanna, bíladeild Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og kvennadeild Slysavarnafélagsins í Reykjavík.



 

Ólafur H. Knútsson, varðstjóri umferðardeildar lögreglunnar
Ólafur H. Knútsson, varðstjóri umferðardeildar lögreglunnar
Frá tónleikunum í Fíladelfíu í dag
Frá tónleikunum í Fíladelfíu í dag
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert