Fréttaskýring: Tugum stjórnenda sagt upp

Nokkur mannfjöldi var mættur á áheyrendapalla Ráðhússins þegar tillögurnar voru …
Nokkur mannfjöldi var mættur á áheyrendapalla Ráðhússins þegar tillögurnar voru samþykktar í borgarstjórn á þriðjudagskvöld. mbl.is/Sigurgeir

Alls verður 46 leikskólastjórum og aðstoðarleikskólastjórum sagt upp frá og með næstu mánaðamótum hjá Reykjavíkurborg samkvæmt upplýsingum frá menntasviði borgarinnar.

Þá verður fjórtán skólastjórnendum grunnskóla, sjö skólastjórum og sjö aðstoðarskólastjórum sagt upp og taka þær uppsagnir gildi hinn 1. janúar 2012. Er þetta liður í tillögum um samrekstur og sameiningu í skólum borgarinnar sem samþykktar voru á fundi borgarstjórnar á þriðjudagskvöld.

Í nýju leikskólunum sem verða til eftir sameiningar verða til 24 stjórnunarstöður og að auki eru átta stjórnunarstöður lausar í öðrum leikskólum á næstu vikum og mánuðum. Þeim sem ekki fá leikskólastjóra- eða aðstoðarleikskólastjórastöður verður boðið starf deildarstjóra. Við sameiningu grunnskólanna verða alls til ellefu ný störf, fjórar nýjar skólastjórastöður og sjö stöður millistjórnenda.

Vegna forgangsröðunar í þágu nýrra leikskólaplássa verða nýráðningar til leikskólanna á árinu að lágmarki 55. Því verður hægt að bjóða öllum þeim sem missa stjórnunarstöður áfram störf hjá leikskólum Reykjavíkur eftir breytingar.

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær störf nýrra grunnskólastjórnenda verða auglýst. „Það er ekki komin tímasetning á það. Þeir eiga að taka til starfa 1. janúar. Það verður þá haustið sem fer í auglýsinga- og ráðningarferli,“ segir Valgerður Janusdóttir, starfsmannastjóri menntasviðs Reykjavíkurborgar.

Meiri niðurskurður árið 2012?

Borgarstjórn samþykkti einnig tillögu menntaráðs um að borgin blási til vinnufunda í hverju hverfi næstkomandi vor með foreldrum leikskóla- og grunnskólabarna og starfsfólki þar sem unnar verði hugmyndir um frekari sparnað í skólum og frístundaheimilum. Afraksturinn verði nýttur við undirbúning fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012.

Guðrún Valdimarsdóttir, formaður Samfoks, segir það liggja fyrir að borgaryfirvöld ætli sér ekki að hætta núna heldur ná fram meiri sparnaði. Samtökin séu uggandi vegna beins niðurskurðar hjá skólunum. Hún segir samtökin myndu taka þátt í því samstarfi sem menntaráð boðar en af litlu sé af taka þar sem hægt sé að spara. „Það er búið að skera það mikið niður að það liggur beinast við að það þyrfti að fara í fækkun kennslustunda eða styttingu skólaársins. Ég sé ekki hvernig á að vera hægt að ná fram meiri sparnaði í skólunum,“ segir hún.

Foreldrar finni virkilega fyrir niðurskurðinum. Frekar ætti að byggja upp skólana á tímum sem þessum. Þetta sé kolröng forgangsröðun.

Ekkert ákveðið um niðurskurð

Rósa Steingrímsdóttir, formaður samtaka foreldra leikskólabarna í borginni, tekur í sama streng. Það sé áfall að það eigi að fara í frekari niðurskurð á næsta ári á sama tíma og fjárfrekar framkvæmdir við gufuböð og sjópotta í sundlaugum séu samþykktar. „Það er eins og borgin sé ekki að forgangsraða í þágu barna. Síðustu ákvarðanir sýna að það eru til fjármunir í borginni. Við þurfum ekki á lúxus að halda ef það er ekki til peningur til að reka menntakerfið,“ segir hún.

Valgerður Janusdóttir hjá menntasviði segir að ekkert liggi fyrir um niðurskurð á næsta ári. Eftir eigi að ákveða fjárhagsramma fyrir árið 2012 og samráð við foreldra sé boðað ef til frekari niðurskurðar kemur.

Vegna fyrri frétta af sameiningarmálum er rétt að taka fram að ekki er búið að hætta við allar sameiningatillögur í Breiðholti. Samþykkt hefur verið að sameina Hálsaborg og Hálsakot og Arnarborg og Fálkaborg.

Eiga að spara rúman milljarð

Breytingarnar sem samþykktar voru í borgarstjórn á þriðjudagskvöld fela í sér að yfirstjórn 24 leikskóla verði sameinuð og koma þær sameiningar til framkvæmda þann 1. júlí. Leikskólastjórastöður í sameinuðum leikskólum verða ellefu talsins. Leikskólar borgarinnar verða eftir breytingar 62 í stað 76, auk samreksturs leik- og grunnskóla og frístundaheimilis í Ártúnsholti.

Áætlað er að breytingar á yfirstjórn skóla, samþætting skóla og frístundastarfs og betri nýting húsnæðis muni skila yfir milljarði króna í sparnað á þremur og hálfu ári. Muni sparnaðurinn strax nema 300 milljónum króna árið 2012.

Hvað grunnskólana varðar verða grunnskólinn Ártúnsskóli, leikskólinn Kvarnarborg og frístundaheimilið Skólasel sameinuð og kemur það til framkvæmda þann 1. janúar 2012. Samkvæmt tilkynningu frá borginni verður horft til framkvæmdarinnar sem tilraunaverkefnis og af því dreginn lærdómur fyrir frekari skólaþróun á næstu árum.

Þá var ýmsum sameiningartillögum frestað þar til 2012, meðal annars í Grafarvogi og í Hvassaleitis- og Álftamýrarskóla.

Sameining
» Borgarstjóra hefur verið falið að sameina leikskóla- og menntasvið.
» Tillögur eiga að liggja fyrir í maí og nýr sviðsstjóri yfir sameinuðu sviði á að taka til starfa 1. júlí.
» Sviðið mun taka yfir umsjón frístundaheimila og félagsmiðstöðva af ÍTR.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert