Varnarsigur fyrir Ísland

Úr Kringlunni.
Úr Kringlunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef okkur tekst að verjast því að mat ríkisins er fellt er það mikill varnarsigur í þessari stöðu. Ég er auðvitað mjög ánægður með það að þeir skuli láta okkur halda óbreyttu lánshæfismati,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um þá ákvörðun matsfyrirtækisins Moody’s að staðfesta óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins.

Er matið Baa3 og því í næsta flokki fyrir ofan ruslflokk og horfurnar áfram neikvæðar.

Aðspurður hvort horfurnar kunni að batna segir fjármálaráðherra útlit fyrir að til dæmis ferðaþjónustan reynist „búhnykkur“ í ár. Góðar fréttir þurfi að fara að berast úr íslensku atvinnulífi til að horfurnar batni.

Ísland að komast út úr brimskaflinum

„Þetta er farið að horfa betur. Við erum að byrja að hafa okkur út úr þessu. Þetta ár verður mun betra en árið 2010,“ segir Steingrímur sem hafnar því að hafa gengið fram með hræðsluáróður gegn því að fella samninginn. Hann hafi einungis verið að benda á afstöðu matsfyrirtækjanna til mögulegra áhrifa þess ef síðasti Icesave-samningur yrði felldur. „Ég man ekki til þess að hafa gert annað en að vísa til þess sem matsfyrirtækin hafa sagt sjálf. Ég kannast ekki við að hafa talað í hræðsluáróðursstíl um það mál,“ segir Steingrímur.
 

Komi í veg fyrir óróa 

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráð herra, segir tíðindin vekja vonir um að „takast muni koma í veg fyrir mikinn óróa í framhaldi af þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave“. „Það er mjög mikilvægt að halda neikvæðum viðbrögðum í lágmarki. Þetta gefur tilefni til að vona að það takist,“ segir Árni Páll og tekur undir að betri tíð sé í vændum. „Það hefur verið offram boð af neikvæðni í íslensku samfélagi. Okkur hefur gengið vel í rekstri efnahagsáætlunar AGS og erum að sýna mun betri árangur í efnahagsmálum en mörg Evrópuríki.“

Moody's hafði áður gefið upp að ef útkoman í þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði nei kynni það að hafa neikvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins.

Lánin yrðu óhagstæðari

Fleiri vöruðu við neikvæðum áhrifum af nei-i og má nefna að Hörður Arnarson, forstjóri Landvirkjunar, sagði Evrópski fjárfestingabankinn horfa væntanlega til álits Moody's á lánshæfismati Íslands.

„Ef Icesave yrði ekki klárað, væri líklega að lánin yrðu óhagstæðari. Í lánaskilmálum EIB segir að nauðsynlegt sé að lánshæfismat ríkisins haldist ásættanlegt fyrir bankann. Þó svo að þarna sé ekki um beint Icesave-skilyrði að ræða, tel ég að bankinn sé að horfa til þess með setningu þessa skilyrðis," sagði Hörður.

Myndi setja Ísland í verri stöðu

Þá varaði Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, við afleiðingum þess að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

„Með því að hafna samningnum eigum við tvennt yfir höfði okkar:

a) að öll upphæðin falli á okkur með dómsúrskurði – ekki bara lágmarksupphæðin – eða b) að við sleppum með að greiða lágmarksupphæðin (samningsupphæðina), þó með mun hærri vöxtum, enda verðum við þá ekki lengur í neinni samningsstöðu. Dagar samninganna eru nefnilega taldir í þessu máli.

Hvort tveggja setur okkur í mun verri stöðu en þá sem nú er. Fari allt á versta veg – og það getum við alls ekki útilokað – þá verður það íslenskur almenningur sem án miskunnar fær að greiða skuldir óreiðumanna í formi efnahagsþrenginga og stöðnunar í atvinnulífi sem óhjákvæmilega mun hljótast af versnandi lánshæfismati og þar með minnkandi fjárstreymi, sem aftur mun leiða til minni hagvaxtar og versnandi lífskjara.“

Lánshæfismatið myndi trúlega lækka

Einnig má nefna að Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík, tók í svipaðan streng.

„Lánshæfismat þjóðarinnar og fyrirtækja mun trúlega lækka ef Icesave er hafnað. Það er mikill ábyrgðarhluti að láta eins og höfnun Icesave-samningsins hafi lítil áhrif á íslenskt atvinnulíf og að við getum auðveldlega sparað okkur að borga.“

Varað við ruslflokki

Loks má nefna að Áfram-hópurinn, baráttuhópur fyrir því að Icesave-samningurinn yrði samþykktur, varaði meðal annars við neikvæðum áhrifum þess að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl í þessari auglýsingu:

„Fyrir liggur að lánshæfismat Íslands gæti farið í ruslflokk með kostnaði fyrir atvinnulíf og opinbera aðila. Matið er að lágmarki 135 milljarða næstu 5 árin. Dæmi um afleiðingar frosts í fjármögnun er OR sem neyðist í fjöldauppsagnir, launalækkanir, auknar álögur og framkvæmdastopp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka