Sérstökum skiltum sem marka staði þar sem fólk getur freistað þess að húkka far áleiðis til Ísafjarðar hefur nú verið komið fyrir í Bolungarvík og Súðavík. Er þetta gert á grundvelli samnings Leiðar ehf. og sveitarfélaganna tveggja og er honum ætlað að gilda í sex mánuði. Að loknum samningstímanum verður framhaldið ákveðið í ljósi þess hvernig til hefur tekist.
„Það er minn draumur að þetta verði svona á stöðum úti á landi þar sem eru fátæklegar almenningssamgöngur, sveitarfelögin ákveði stað sem umferð liggur um þar sem menn geta komið sér fyrir með þessum formerkjum,“ segir Jónas Guðmundsson, stjórnarmaður í Leið ehf. Hann segir að enn hafi ekki fengist nein viðbrögð við framtakinu, enda stutt síðan skiltin voru sett upp. Það var gert 20. apríl síðastliðin.
Jónas segist ekki eiga von á að margir muni nýta sér hina merktu staði til að byrja með en segist vona að þegar frá líður verði framtakið sem flestum til gagns.
Miðað er við að fólk sem freistar þess að fá far á merktum stöðum greiði lágt gjald hjá þeim leyfir þeim að sitja og taki þannig þátt í ferðakostnaðinum. Þessum ferðamáta er ekki ætlað að keppa við almenningssamgöngur heldur frekar að vera viðbót við þær, til dæmis þá daga eða á þeim svæðum sem þær liggja niðri eða bjóðast ekki yfir höfuð.
Hér má lesa frétt um málið á vef Leiðar ehf.