Háhyrningstarf rak á land við Norðurgarð á Rifi nú nýlega. Talið er að hvalurinn sé tiltölulega nýdauður. Hræið er mjög heillegt. Margir hafa lagt leið sína að því til að skoða það í dag.
Höskuldur Árnason sjómaður kvaðst hafa frétt af hvalrekanum laust eftir hádegið í dag. Hann sagði að hvalurinn væri mjög heillegur og líklega ekki búinn að liggja þarna lengi. Hann sagði að enn hafi blætt úr hvalnum þegar hann skoðaði hann í dag.
Slegið var lauslegu máli á háhyrninginn og mældist hann vera 6,5 - 7 metra langur. Hvalurinn liggur í fjöru um einn kílómetra frá stofuglugga Höskuldar.
Hann sagði að hópur háhyrninga, 6-7 dýr, hafi gengið inn í höfnina á Rifi nýlega. Svo fóru háhyrningarnir en menn grunar að þetta dýr hafi orðið eftir. Talsverður straumur hefur verið af fólki í dag að skoða hvalrekann.