Passíusálmar víða lesnir

Passíusálmarnir eru lesnir í mörgum kirkjum. Lesturinn hófst í Seltjarnarneskirkju …
Passíusálmarnir eru lesnir í mörgum kirkjum. Lesturinn hófst í Seltjarnarneskirkju klukkan 13.00. mbl.is/Ómar

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar eru víða lesnir í heild sinni í kirkjum landsins í dag. Lesturinn hófst klukkan 13.00 í Seltjarnarneskirkju en þar lesa sálmana 17 Seltirningar á ýmsum aldri. Á milli er flutt tónlist.

Friðrik Vignir Stefánsson organisti og Monica Abendroth hörpuleikari leika tónlist í lestrarhléum. Boðið verður upp á kaffiveitingar í safnaðarheimilinu.

Lestur Passíusálmanna hófst í Guðríðarkirkju í Grafarvogi í morgun klukkan 10.00. Í Grafarvogskirkju verða Passíusálmarnir lesnir frá klukkan 13-19 og annast félagar úr Samtökunum 78 flutning sálmanna og tónlistar.

Passíusálmalestur hófst í Grindavíkurkirkju klukkan 11 í morgun og stendur til klukkan 16. Íslenskukennarar og tónlistarfólk lesa Passíusálmana og flytja tónlist í Hallgrímskirkju í Reykjavík klukkan 13-19. Sigurður Skúlason, leikari, les Passíusálmana í heild sinni á föstudaginn langa  í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Sálmarnir verða einnig lesnir í Selfosskirkju frá klukkan 13 í dag. Í mörgum kirkjum eru einnig sérstakar dagskrár helgaðar atburðum föstudagsins langa fluttar í tali og tónum.

Þá lesa prestar sem tengjast Kópavogi með ýmsum hætti sálmana í Kópavogskirkju í dag frá klukkan 15-19.30. Að lestri loknum verður kirkjan myrkvuð og við tekur íhugun þagnarinnar.

Orðið passía er myndað af latneska orðinu passio, sem þýðir þjáning, að því er fram kemur á Vísindavefnum.  „Í textum frá 16. öld kemur orðið passía fyrir sem heiti á þjáningar- eða píslarsögu Jesú Krists. Þá átti samkvæmt helgisiðareglum að lesa alla píslarsöguna við guðsþjónustu á föstudaginn langa,“ segir á Vísindavefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka