Á lúxusjeppa með stolin blóm

Ölfusá við Árborg.
Ölfusá við Árborg. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

„Ég hélt það væri líka bannað að stela plöntum frá mér eins og það er að spila bingó á föstudaginn langa," segir Guðni B. Gíslason, eigandi veitingastaðarins Hafið bláa við Ölfusá.

Rétt fyrir opnun staðarins í gær, föstudaginn langa, var plöntum úr blómakerjum utan við staðinn stolið. Myndir af þjófunum ásamt bílnúmeri náðust á öryggismyndavélar og hvetur Guðni nú þjófana til að skila plöntunum. 

Guðni greip til þess ráðs að reyna að höfða til samvisku þjófanna í gegnum Facebook síðu veitingastaðarins.

„Sæl hjón sem að komuð á svörtum Porsche Cyane í dag föstudaginn langa og tókuð plönturnar úr blómakerjunum hjá mér kl. 14:38. Þið náðust á 4 öryggismyndavélar ásamt bílnúmeri. Ég bið ykkur um að hafa samband við mig í síma 483-1000. Ég vil síður fara með þetta í lögregluna en geri það þó á þriðjudagsmorgun hafi ég ekki heyrt frá þér. Kveðja," hljóða skilaboðin á Facebook.

Guðni segir að vel sjáist til karlmannsins í myndavélinni, þar sem hann fari fyrst upp að dyrum til að kanna hvort það sé opið en taki síðan vorblómin sem var nýbúið að kaupa. „Ef ég myndi setja þetta á YouTube, sem má nú ekki, myndi hann öðlast sína frægð. Ég óska þessum manni alls hins besta, það er spurning hvort hann selji ekki bílinn, fyrst hann hefur ekki efni á að kaupa sér blóm. Þetta var svakalegur dreki. Ég er alveg maður í að gefa honum plönturnar bara ef hann er tilbúinn að gangast við því og þakka fyrir."

Ef ekkert heyrist og blómin skila sér ekki býst Guðni við að fara til lögreglunnar. „Ég hugsa að ég hendi nú disknum í lögguna, það er nú óþarfi að láta stela sér frá sér þótt það sé ekki mikið"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert