Skattar og álögur á eldsneyti hafa aldrei verið hærri en nú. Dæmi er að ökumaður bíls sem keyrir 15.000 km á ári greiðir nú hátt í 162.000 krónur á ári til ríkisins, að því gefnu að bíllinn eyði 9 lítrum á hundraðið og að orkugjafinn sé bensín.
Eldsneytisverð hefur aldrei verið hærra og má því slá því föstu að álagningin hafi að sama skapi aldrei verið jafn mikil á hverjum seldum lítra.
Í ofangreindu dæmi er stuðst við meðalakstur á ári eins og hann er skilgreindur af Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB. Miðar félagið við þrjár gerðir af bílum við útreikninga á árlegum rekstrarkostnaði og eyða þeir 8, 9 og 11 lítrum á hundraðið. Er því miðað við 9 lítra eyðslu hér.
Sé orkugjafinn dísel er skatturinn kominn í 164.330 krónur eða 13.694 krónur á mánuði, ríflega 450 krónur á dag, allt árið.
Miðast við lægsta verð
Verðið sem hér er reiknað út frá er fengið af vefnum gsmbensin.is en þar er stuðst við lægsta verð í sjálfsafgreiðslu. Kostaði bensínið í morgun 238 krónur en díselolía 242 krónur lítrinn. Skal tekið fram að hægt er að fá eldsneyti á lægra verði, svo sem með afsláttarlyklum.
Hitt má einnig taka fram að margir ökumenn aka eyðslufrekari bílum.
Athygli vekur að ef eyðslan er 20 lítrar á hundraðið kostar bensínið orðið 714.000 krónur á ári, miðað við 15.000 km akstur, og 726.000 krónur ef ekið er á díselbíl. Skattar af þessum útgjöldum eru 359.142 krónur annars vegar og 365.178 krónur hins vegar.
Þýðir það að eldsneytisskattar ökumanna á slíkum farartækjum nema ríflega 1.000 krónum á dag, allt árið.
En við þessa útreikninga er stuðst við þá áætlun FÍB að hlutur ríkisins í útsöluverði á eldsneyti sé 50,3%.