Fjárfesting í pípunum

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru auðvitað fjölmörg fjárfestingarverkefni hér í skoðun og í pípunum. Við gerum okkur ágætar vonir um að einhver þeirra komist áfram,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um tækifærin framundan. Ráðherrann horfir sérstaklega til ferðaþjónustunnar. 

„Allt myndi þetta leggjast með okkur,“ segir Steingrímur og á við umrædd verkefni. Steingrímur horfir til ferðasumarsins 2011.

„Við ættum til dæmis ekki að vanmeta horfurnar í ferðaþjónustunni og hvernig árið byrjar og horfurnar eru fyrir sumarið. Það eru yfirgnæfandi líkur á að þar sé verulegur búhnykkur að bætast inn í hagkerfið. Aprílmánuður verður miklu betri en apríl í fyrra sem var mjög slakur. Apríl og maí voru mjög slakir mánuðir út af gosinu í Eyjafjallajökli.“

- Mun aukið tekjustreymi í ríkissjóð vegna ferðamanna vega þungt í ríkisfjármálunum?

„Ég held að það sé enginn vafi á því að við erum að sjá fram á miklu betra ár en í fyrra. Ég hef heyrt því fleygt að vöxturinn í ferðaþjónustunni gæti skilað 30 milljörðum í auknar gjaldeyristekjur. Það munar um minna.“

Leiðin liggur upp á við

- Þú tókst sem fjármálaráðherra við erfiðu búi. Er erfiðasti hjallinn að baki?

„Já, það er enginn vafi á því að þetta er farið að horfa betur. Við erum að byrja að hafa okkur út úr þessu. Það er hins vegar alltaf fyrir hendi sú spurning hversu kraftmikill þessi bati verður,“ segir Steingrímur og víkur að jákvæðri umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsáætlunina fyrir Ísland.

„Satt að segja verður maður hálf kindarlegur á köflum þegar maður fær úr þessum áttum jákvæð ummæli. Það er auðvitað þannig að við erum búin að ná árangri á ýmsum sviðum og kannski hefur markverðasti árangurinn náðst í glímunni við ríkisfjármálin. Hagkerfið er að byrja að rétta úr kútnum en auðvitað hefði maður viljað sjá kraftmeiri bata. En bati er það engu að síður. Þetta er byrjað að líta betur út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert