„Samt sem áður, Gnarr bauð sig fram til borgarstjóra, og lét allskyns hluti falla sem í öðru landi eða á öðrum tímum hefðu kallað yfir hann stimpilinn vitfirringur,“ segir í bloggi NBC um kvikmyndina Gnarr. Jón útilokar ekki að bjóða sig fram annað kjörtímabil í samtali við Wall Street Journal.
Talsvert er fjallað um myndina vestanhafs og kemst Scott Ross, gagnrýnandi NBC, svo að orði að athyglisvert sé að fylgjast með þeirri umbreytingu á Jóni Gnarr í myndinni er frambjóðandinn byrjar að átta sig á því að hann eigi raunverulegan möguleika á að verða borgarstjóri.
Grein Ross er á jákvæðum nótum en þó er fundið að því að náið samband Jóns Gnarr og Gauks Úlfarssonar kvikmyndagerðarmanns dragi úr hlutlægni myndarinnar sem heimildar um frambjóðandann Jón Gnarr. Tekur hann raunar svo til orða að myndina skorti alla hlutlægni. Segir Ross jafnframt að erfitt sé að henda reiður á margar persónur myndarinnar.
Jón Gnarr er einnig til umfjöllunar á vef kanadíska dagblaðsins Calgary Herald en þar er haft eftir borgarstjóra Reykjavíkur að skrautlegasta loforð hans hafi verið að byggja Júragarðinn í Reykjavík, með velferð risaeðlanna í kvikmyndinni frá árinu 1993 í huga.
Ljótur arkitektúr í sósíalísku ríki
Mark Asch, gagnrýnandi hjá The L Magazine, fjallar einnig ítarlega um myndina á vef tímaritsins.
Segir gagnrýnandinn Jón Gnarr hafa úthúðað ljótum nútímaarkitektúr og Ikea-húsgögnum er talið berst að nýlegri sögu þessa sósíalíska dvergríkis sem hafi átt háðuglega innkomu á alþjóðamarkaðinn.
En Asch á þar við útrásina og fjörbrot hennar haustið 2008.
Þá er rætt við Jón á vef Wall Street Journal.
Er þar haft eftir borgarstjóra að hann geti hugsað sér að bjóða sig fram aftur árið 2014 ef borgarbúar vilja að hann stýri borginni áfram.