„Ég held að við séum flestir með sömu hugsun sem erum hérna, að um leið og þetta lagast eitthvað þá förum við heim. Maður myndi ekki nenna að hanga einn hérna úti ef gengið væri ekki svona hátt.“
Þetta segir Guðmundur Kristmundsson pípulagningamaður, sem síðustu tvö ár hefur verið aðskilinn frá fjölskyldu sinni á Íslandi, vegna vinnu í Noregi.
Þar leigir Guðmundur húsnæði ásamt 12 öðrum Íslendingum. Hann lætur vel af aðbúnaði Norðmanna og segir vinnuna góða en lífið geti verið einmanalegt án fjölskyldunnar.
Guðborg Eyjólfsdóttir, eiginkona Guðmundar, segir ömurlegt að þurfa að sætta sig við þessar aðstæður til lengdar og ef ekkert breytist muni hún flytja út til hans með dæturnar á næsta ári, þótt helst vilji þau búa á Íslandi. „Ef við ætlum að vera fjölskylda þá náttúrlega gengur þetta ekki svona mikið lengur.“
Fjölskylda Guðmundar og Guðborgar er ekki sú eina sem er búsett í tveimur löndum. Frá árinu 2008 til þessa dags hafa 3.543 Íslendingar flust til Noregs. Karlar eru í meirihluta og samhliða flutningi þeirra úr landi hefur aukist að hjón séu skráð „ekki í samvistum“ í þjóðskrá.
Gjarnan hefur verið sagt að Íslendingar komi alltaf heim aftur. Reynsla síðustu áratuga er sú að tæp 80% flytji til baka en hagtölur sýna að hópurinn sem hefur flutt burt í þessari kreppu er að sumu leyti öðruvísi samsettur en áður. Það gæti haft áhrif á það hversu margir snúa aftur þegar fram í sækir.