Frá því ríkisstjórnin hélt fund sinn í Víkingaheimum á Suðurnesjum þann 9. nóvember sl. og boðaði aðgerðir í atvinnumálum á Suðurnesjum hefur atvinnulausum fjölgað vel á annað hundrað og atvinnuleysisprósentan hækkað úr 12,7% í 14,5%. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta í dag.
Samtals hafa 140 manns misst vinnuna frá því fundurinn var haldinn, 20 atvinnulausir hafa flutt í burtu frá Suðurnesjum og aðrir 20 hafa fallið af atvinnuleysisskrá og eru komnir á framfærslu Reykjanesbæjar.
Í Páskablaði Víkurfrétta er rætt við Árna Sigfússon bæjarstjóra Reykjanesbæjar og segir hann að ýmis verkefni þokist áfram s.s. um kísilver, gagnaver og einkasjúkrahús en enn ríki of mikil óvissa. Of margt strandi á ríkisstjórnini. „Það er líka rétt að minna á það að ekkert af þessum stóru verkefnum var fjallað um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í Víkingaheimum nú fyrir tæplega hálfu ári síðan," segir Árni í viðtali Víkurfrétta. „Svo má auðvitað velta fyrir sér hver afraksturinn er af þessum yfirlýsingum. Það voru ýmis falleg orð um Landhelgisgæslu og það voru orð um að rétta af fjárhag skólanna en þar hefur ekkert gerst, tíminn er skólanna, haustið er rétt framundan. Landhelgisgæslan átti að skila niðurstöðum 1. febrúar en þær hafa ekki enn litið dagsins ljós.“