Nýr vegur frá Austurlandsvegi vestan Jökulsár á Fjöllum niður að Dettifossi er 25 km langur og var opnaður sl. haust með bundnu slitlagi
Þessi vegur hefur lengi verið á óskalista ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og er nú orðinn að veruleika þó smávegis sé ógert við frágang næst bílastæðinu við fossinn.
Í allan vetur hafa nú venjulegir bílar í fyrsta sinn átt greiða leið að fossinum þegar veður hamlar ekki umferð.
Í Morgunblaðinu í dag segir að þetta séu mikil umskipti frá því sem áður var, en gamla vegslóðin að fossinum var aldrei fær nema frá júní og fram í september og fór þó illa með mörg ökutæki.