„Þetta er svolítið mikið miðað við hvað þetta er lítill hellir og gott að það varð enginn undir þessu," segir Heiða Björg Scheving, leikskólastjóri og bóndi á Hvassafelli undir Eyjafjöllum. Talsvert grjóthrun varð í síðustu viku úr loftinu á Steinahelli, í suðurhlíð Steinafjalls undir Eyjafjöllum.
Mjög algengt er að vegfarendur sem eiga leið hjá leggi krók á leið sína til að skoða hellinn en á svæðinu er mikil hrun- og skriðuhætta og hafa mörg mannslíf týnst vegna þess í áranna rás. Heiða Björg segist ekki vita til þess að neinn hafi verið nærri hellinum þegar hrundi úr loftinu á honum, það hafi líklega gerst í nótt eða í morgun. „Við fórum þarna fram hjá um fimmleytið í gær og svo aftur um ellefu í morgun og sáum þá að þetta hafði gerst, þannig að þetta hefur hrunið einhvern tíma þar á milli."
Talsverðar rigningar voru austur undir Eyjafjöllum í gær og er ekki ólíklegt að það hafi valdið losi í móberginu við hellismunnann með þessum afleiðingum. Að sögn Eyjólfs Guðmundssonar, vegfaranda sem átti leið hjá, er hellirinn nú varasamur því þarna hangir þunn brún sem virðist geta hrunið án fyrirvara.