Verðum að læra að treysta

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson. mbl.is/Ómar

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í páskaprédikun í Dómkirkjunni í morgun, að ári eftir útkomu rannsóknarskýrslu Alþingis setti neikvæðnin, sakbendingarnar og dómharkan mark sitt á þjóðarsálina.

„Það er vissulega ekki að ástæðulausu. En það er auðvelt að missa móðinn. auðvelt að láta neikvæðnina taka yfir í sál sinni.  Það er svo auðvelt að finna sökudólga og benda á aðra og firra sig ábyrgð og flýja í skjól kæruleysis og kaldhæðni," sagði Karl.

Hann sagði að við þörfnuðumst trúar á lífið og möguleika okkar til að leysa aðsteðjandi vanda, þörfnuðumst trúar á mátt umhyggju kærleikans til að reisa og viðhalda samfélagi sem stuðlar að mannlegri reisn.

„Og við þurfum að læra af mistökum og brotum okkar. Við erum öll brothættar manneskjur, breyskar og varnarlausar manneskjur,"  sagði Karl.

„Við megum ekki við því öllu lengur að sitja föst í vantrausti og tortryggni. Við verðum að geta kallað fram það besta í hvert öðru. Til þess  þyrftum við að leggja okkur fram í agaðri samræðu og sanngirni, virðingu við náungann.  Reyndar er agaleysið og virðingarleysið okkar mesta böl og ein helsta orsök ófara okkar," sagði Karl.

Hann sagði að reiðin hefði einnig tært og brotið niður traust til þeirra grunnstoða og stofnana sem heilbrigt samfélag byggir á. „Börnin okkar líða undir því, það segja kennarar, sem kikna undan álaginu og því hve börnin eru tætt," sagði Karl.

Hann sagði að sagan kenndi að þjóðin muni rísa upp „en til þess þurfum við að læra að treysta í stað þess að traðka niður það góða sem í okkur býr og umhverfis okkur er."

Prédikun biskups Íslands

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert