Vilja að Ásmundur Einar segi af sér

Ásmundur Einar Daðason á Alþingi.
Ásmundur Einar Daðason á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Á sameiginlegum fundi svæðisfélaga Vinstri grænna í Grundarfirði og Stykkishólmi um helgina var þess krafist að Ásmundur Einar Daðason segi af sér þingmennsku og hleypi á þing fulltrúa VG sem styðji ríkisstjórnina og sé tilbúinn að vinna að stefnu VG í víðu samhengi.

„Þar sem Ásmundur Einar tók þá ákvörðun að styðja ekki sitjandi ríkisstjórn sem VG er aðili að heldur samþykkja vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins teljum við eðlilegt og sanngjant að Ásmundur Einar víki af þingi," segir í ályktun fundarins.

Segja félögin að ákvörðun Ásmundar Einars hafi verið tekin án alls samráðs og án vitneskju félagsmanna VG á svæðinu enda hafi tengsl Ásmundar við félagsmenn VG í Grundarfirði og Stykkishólmi verið í lágmarki frá kosningum. 

„Við þær erfiðu aðstæður sem þjóðin stendur frammi fyrir og til að verja þann góða árangur sem þegar hefur náðst í endurreisn landsins eftir hrun frjálshyggjunnar er mikilvægt að alþingismenn horfi til framtíðar.  Eins máls málflutningur alþingismanna er ekki vænlegur til árangurs," segir síðan.

Fram kemur á vef Skessuhorns, að á fundinum var einnig samþykkt ályktun um sjávarútvegsmál þar sem skorað er á stjórnvöld  að leggja fram hið fyrsta tillögu að breytingum í sjávarútvegsmálum eins og báðir flokkar ríkisstjórnarinnar voru kosnir til.

Þá samþykkti fundurinn einnig ályktun þar sem vinnubrögðum Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðum við ASÍ er mótmælt. 

Vefur Skessuhorns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert