Talsvert hefur snjóað á sunnanverðu landinu í morgun og var víða jólalegt um að litast þótt komið sé langt fram í apríl. Að sögn Veðurstofunnar má búast við nokkuð samfelldri ofankomu sunnan- og vestantil fram eftir degi og hálku eða krapa víða á svæðinu af hennar völdum.
Klukkan 6 í morgun var suðlæg átt, 5-13 metrar á sekúndu og snjókoma á Reykjanesi, él sums staðar sunnanlands og á stöku stað austantil, en annars skýjað með köflum. Kaldast var 5 stiga frost á Haugi í Miðfirði, en mildast 4 stiga hiti á Neskaupstað og Dalatanga.