Kvörtun lántakenda send til ESA

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.

Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega, hafa með aðstoð hæstaréttarlögmanna, sérfræðinga í evrópurétti og löggiltra endurskoðenda, ásamt um eitt þúsund einstaklingum, undirritað og sent formlega kvörtun til ESA vegna meintra brota íslenskra stjórnvalda og stjórnsýslu á Evrópurétti.

Framkvæmdastjórn ESB og forseta Evrópuþingsins hefur jafnframt verið tilkynnt um kvörtunina og aðstoðar þeirra óskað vegna málsins innan ramma aðildarviðræðna Íslands. Neytendur frá Spáni og Þýskalandi eru einnig aðilar að kvörtuninni vegna sömu brota á grundvallarréttindum ríkisborgara aðildarríkja ESB.

Í fréttatilkynningu  er bent á að samkvæmt Kaupmannahafnarsamkomulaginu frá 1993, sé ein af grundvallarforsendum aðildar að ESB, að umsóknarríki virði grundvallarréttindi þegnanna.

Í tilkynningunni segir að kvörtunin vísi í vanefndir um eftirfylgni við evróputilskipun 93/13/EC í dómaframkvæmd auk lagasetningar nr. 151/2010 er gengur þvert á lögleiddan neytendarétt, eignarréttarákvæði stjórnarskrár og umrædda tilskipun um neytendarétt.

Í kvörtuninni til ESA, eftirlitsstofnunnar EFTA, er yfirlýsingar óskað um brot Íslands á skuldbindandi ákvæðum EES samningsins. Með brotunum er borgurunum neitað um skýr, nákvæm og óskilyrt réttindi sem þeir hafi öðlast með Evrópurétti. Ályktun ESA verði byggð á eftirfarandi staðreyndum:

Lagasetning er með afturvirkum íþyngjandi ákvæðum fyrir neytendur.

Beiðnum til stjórnsýslu um neytendavernd hefur ýmist verið hafnað, afneitað og/eða tæknilegar hindranir settar í götu neytenda.

Ófrávíkjanlegur neytendaréttur hefur verið settur til hliðar af dómsvaldi og beiðnum um ráðgefandi réttarfarslegt álit EFTA dómstólsins um áðurnefnd málefni verið hafnað.

Ofangreint séu brot á Evrópurétti sem leitt geta til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum.

Síðast en ekki síst er óskað yfirlýsingar um að lagarammi verðtryggingar sem er við lýði á Íslandi, þar sem fjárhagslegri áhættu og afleiðingum verðbólgu er sjálfkrafa velt yfir á neytendur, brjóti gegn grundvelli Evrópuréttar. Út frá þeim lagaramma geti neytendur ekki metið fjárhagslegar skuldbindingar sínar við undirritun samnings og jafnvel léttvæg verðbólga hafi íþyngjandi fjárhagslegar afleiðingar yfir heildar samningstímann.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert