Efling-stéttarfélag gerir þá kröfu til Samtaka atvinnulífsins að samningar á almennum markaði verði afturvirkir á sama hátt og Samtök atvinnulífsins hafa samþykkt í nýjum kjarasamningi SA og Elkem.
Ályktun þessa efnis var samþykkt á aðalfundi félagsins. Í ályktuninni segir að þar sem Samtök atvinnulífsins hafi með samningi við Elkem lagt til hliðar stefnu sína í sjávarútvegsmálum, beri þeim að ganga til samninga af fullri alvöru við félögin innan ASÍ strax eftir páskahátíðina.
Kjarasamningarnir sem SA gerði vegna starfsmanna sem vinna hjá Elkem á Grundartanga eru afturvirkir og gilda frá 1. janúar sl. Þetta gerir það að verkum að starfsmenn fá viðbótargreiðslu um næstu mánaðamót þegar sú hækkun sem í samningnum felast er gerð upp.
Búist er við að kjaraviðræður milli SA og landssambanda ASÍ hefjist að nýju á morgun, en það slitnaði upp úr viðræðum skömmu fyrir páska vegna ágreinings um sjávarútvegsmál.