Þess var í dag minnst með athöfn að 70 ár eru liðin frá stofnun norsku flugsveitarinnar sem hafði aðsetur í Nauthólsvík í Heimsstyrjöldinni síðari. Minnisvarði um veru sveitarinnar stendur í Nauthólsvík, en sveitin samanstóð af nokkrum ungum piltum sem flýðu Noreg eftir að landið var hersetið af Þjóðverjum.
Einn Íslendingur var í sveitinni, Njörður Snæhólm, sem lærði flug ásamt Norðmönnunum í Kanada. Starf sveitarinnar hér fólst m.a. í því að vernda skipalestir fyrir ágangi þýskra kafbáta og annast eftirlit og njósnaflug.
Norska flugsveitin flaug sjóflugvélum af gerðinni Northrop. Ein slík vél liggur á hafsbotni í Skerjafirði en hún fannst árið 2002. Til stendur að ná flaki vélarinnar á þurrt land og verður m.a. unnið að því í tilefni afmælisársins.