„Ég held að engum hafi dottið í hug, þó við tækjum málefni Suðurnesjanna sérstaklega fyrir, færum þangað í heimsókn og hleyptum af stað ýmsum aðgerðum, að það eitt og sér gerði kraftaverk.“
Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, í Morgunblaðinu í dag, spurður um þá staðreynd að störfum á Reykjanesi hefur fækkað síðan ríkisstjórnin efndi til fundar um átak í atvinnumálum svæðisins í nóvember.
„Síðan þetta var hefur þó náðst að ganga frá samningum um eitt stórt atvinnuverkefni á Suðurnesjum sem er að fara af stað á árinu, þ.e. bygging kísilverksmiðju í Helguvík. Ég hygg að öll þau mál sem voru sett í farveg á fundinum séu á sínum stað. Þá á ég við kortlagningu á félagslegum aðstæðum, átak á menntasviðinu og störf á vegum Þróunarfélags Keflavíkur og fleiri aðila. Allt hefur þetta vissulega hjálpað,“ segir fjármálaráðherra.„En það datt engum í hug, hvorki okkur né heimamönnum, að þetta átak myndi valda einhverjum straumhvörfum í glímunni við atvinnuleysi strax, t.d. upphefja hina árstíðabundnu sveiflu í atvinnuleysi,“ segir hann og kveðst gera sér vonir um að atvinnuleysi fari niður fyrir 7% á landsvísu í sumar.