Félagsmenn Framsýnar fá afmælisgjöf

Höfnin í Húsavík.
Höfnin í Húsavík. mbl.is/GSH

Í tilefni af 100 ára afmæli Framsýnar-stéttarfélags, sem áður hét Verkamannafélag Húsavíkur, var ákveðið að gefa félagsmönnum afmælisgjöf, samtals að andvirði 22,5 milljónir króna.

Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað þann 14. apríl árið 1911.

Gjöfin skiptist jafnt á milli þeirra félagsmanna sem voru fullgildir félagsmenn þann 31. mars síðastliðinn og fær hver um sig inneign að andvirði 10 þúsund kr., sem þeir geta notað til þess að greiða niður útlagðan kostnað sem fellur undir reglugerð fræðslusjóðs, sjúkra- eða orlofssjóðs félagsins.

Á baráttudegi verkamanna, þann 1. maí, standa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fyrir hátíðarhöldum, en í tilefni afmælis Framsýnar verður einnig um afmælishátíð að ræða.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands verður á meðal gesta, en boðið verður upp á skemmtiatriði sem höfða eiga til allra aldurshópa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert