Flóabandalagið vísar til sáttasemjara

Flóabandalagið svonefnda, það er Efling-stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, vísaði í dag kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands ákvað á fundi í dag að beina því til aðildarsambanda og félaga að vísa kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara og setja allan þrýsting á um að tryggja launahækkanir á þessu ári.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sagði við mbl.is fyrr í dag, að  þolinmæðin sé á þrotum og kjaraviðræður séu komnar í „mikinn og harðan hnút.“

Sigurður segir stöðuna hafa verið rædda fyrir páska og vonir staðið til þess að hreyfing kæmist á málin á ný. Það hafi hins vegar ekki orðið.

„Það er alveg ljóst að þessi nálgun SA, að setja sjávarútvegsmálin sem algjört skilyrði fyrir því að hægt sé að koma á kjarasamningum, er að valda verulega miklum skaða,“ segir Sigurður.

Það er forsenda verkfallsaðgerða að kjaradeilu hafi verið vísað til ríkissáttasemjara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert