Takist ekki að koma fjárfestingum af stað gæti ríkissjóður neyðst til að grípa til enn frekari aðhaldsaðgerða með tilheyrandi niðurskurði og skattahækkunum. Þetta er mat Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem óttast áhrifin á velferðarkerfið.
„Það er til fólk sem hefur svo nauman fjárhag að það má ekkert út af bregða. Ef við náum okkur ekki upp úr þessu fari kemur önnur umferð af niðurskurði og skattahækkunum,“ segir Vilhjálmur og svarar því aðspurður til að ekki verði hægt að viðhalda sömu velferð ef frekar verði dregið úr útgjöldum ríkisins. Aukinn niðurskurður þýði því meiri fátækt hjá þeim sem höllumstum fæti standa.
Tímabil stöðnunar framundan?
Eins og fram kom í viðtali mbl.is við Vilhjálm á laugardag er hann þeirrar skoðunar að ef ekki takist að koma hagvextinum í 4-5% sé raunveruleg hætta á frekari stöðnun og þar með vaxandi fátækt í íslensku samfélagi.
Aðspurður hvort sú stund sé runnin upp að almenningur sé farinn að finna verulega á eigin skinni hvernig gengishrunið og stórlækkaður kaupmáttur hamli endurnýjun ýmissa hluta, á borð við bifreiðar, segir Vilhjálmur ýmislegt til í þeirri greiningu.
Þolinmæðin að bresta
Yfirleitt sýni almenningur þolinmæði í 12 til 24 mánuði eftir að efnahagsáfall ríður yfir en síðan fari kröfur um aðgerðir að verða háværari. Sú stund sé runnin upp í íslensku samfélagi.
„Eftir því sem þetta varir lengur þeim mun meira tekur þetta í hjá fólki. Þess vegna finnst okkur hjá Samtökum atvinnulífsins sem okkur beri skylda til að berjast fyrir atvinnuleiðinni þar til það er meira en fullreynt.“
En hvað með svigrúm til að lækka tolla og örva þannig neyslu?
„Þá þarf líka að huga að ríkiskassanum. Málið snýst um að koma atvinnulífinu af stað með fjárfestingum. Það er eina raunhæfa leiðin. Þá skapast tekjur og atvinna við uppbygginguna. Um leið og það fer að ganga betur í hagkerfinu fer að ganga betur hjá ríkissjóði.
Ef okkur tekst að ná atvinnuleysinu niður náum við um leið að koma tryggingartjaldinu niður og fá peninga til þess að setja í launaumslagið hjá fólki... Við getum ekki bara aukið einkaneysluna og látið allt drabbast niður í atvinnulífinu. Það er skammgóður vermir,“ segir Vilhjálmur Egilsson.