„Nú ætti mesti hrollurinn að vera að baki því spáin næstu daga gerir ráð fyrir suðlægum áttum, rigningu og hlýindum,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Snjór var yfir öllu í höfuðborginni í gærmorgun enda þótt fólk sem tók sitt venjubundna skemmtiskokk léti það ekki slá sig út af laginu.
Nokkrar sveiflur hafa verið í veðráttunni síðustu daga, kaldir vindar frá Grænlandsströndum hafa blásið að landinu þótt aprílmánuðir hafi verið fremur hlýir, enda suðlægar áttir ríkjandi.
Næstu daga má, að sögn Einars, gera ráð fyrir fimm til tíu stiga hita með rigningu um landið sunnanvert. Enn hlýrra verður nyrðra þar sem vænta má góðrar tíðar og grasa í túni jafnt sem úthaga.