Kjaradeila í rembihnút

Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson í Karphúsinu á dögunum.
Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson í Karphúsinu á dögunum. mbl.is

„Við þurfum að fara að huga að verjum okkar og skjöldum, ef verkalýðshreyfingin ætlar að fara að brýna kutana,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. VR og Flóabandalagið vísuðu í dag deilum sínum við SA til ríkissáttasemjara.

Nú undir kvöldið lauk fundi SA og fulltrúa Starfsgreinasambandsins, sem þegar hafði vísað deilu sinni til sáttasemjara, með því að SGS bókaði það að samningaumleitanir væru fullreyndar. „Það hefur nú fyrst og fremst þá merkingu að þá geta þeir farið af stað og undirbúið verkfallsaðgerðir,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir tíðindin af ákvörðunum VR og Flóabandalagsins ekki koma sér á óvart. „Við höfum frekar reiknað með því að málin færu í þennan farveg, fyrst að ekki náðist saman með ríkisstjórninni fyrir páskana,“ segir hann.

Þeir viðsemjendur SA sem vísað hafa máli sínu til sáttasemjara geta bókað það í kjölfar sáttafunda að samningsuleitanir séu fullreyndar og hafið undirbúning verkfallsaðgerða. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði fyrr í dag að nú þyrftu launþegahreyfingar að fara að huga að slíkum aðgerðum.  Vilhjálmur segir það einnig hafa verið viðbúið. „Við teljum að það verði ekki til nein verðmæti með verkföllum og átökum á vinnumarkaði, heldur þvert á móti.“

Viðsemjendum SA hefur verið tíðrætt um þá afstöðu SA að gera sjávarútvegsmálin að lykilforsendu þess að kjarasamningum sé náð. Er það óhugsandi að SA gefi afslátt af þeim kröfum sínum?

„Við verðum bara að leysa þau mál eins og önnur," segir Vilhjálmur. "Sjávarútvegurinn er ein af lykilatvinnugreinum landsmanna og það er óhugsandi að hægt sé að fara atvinnuleiðina án þess að sjávarútvegurinn sé með.“ Hann segir verða í þerri stöðu, í fyrirsjáanlegri framtíð, að þurfa að treysta á sjávarútveg sem eina af burðarstoðum atvinnulífsins.

„Það er ekki hægt annað en hann fái eðlileg rekstrarskilyrði og að þessari gífurlegu óvissu sem um hann ríkir sé aflétt.“

En hvað með að semja til skemmri tíma?

„Það yrði bara staðfesting á því hjakki sem við erum í, og algjört neyðarúrræði. Í gegnum skammtímasamning fást aldrei þær kjarabætur og sú kaupmáttaraukning sem hægt er að ná í gegnum lengri samning,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að næstu skref séu þau að athuga hvort ríkisstjórnin sé ekki fáanleg til þess að klára þau mál sem út af stóðu í viðræðum um daginn. „Ég hef trú á því að ef menn sjá fram á það að málin séu að leysast út frá þeim forsendum sem við unnum út frá um daginn sé ennþá tími til þess að fara þá sem allir eru sammála um að sé besta leiðin. Það er okkar skylda að gefast ekki upp fyrr en annað er algjörlega fullreynt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert