Starfsmenn Elkem Ísland hafa samþykkt samning, sem Verkalýðsfélag Akraness gerði við fyrirtækið fyrir þeirra hönd. Alls greiddu 125 starfsmenn atkvæði og sögðu 111, eða 88,8%, já en 14 sögðu nei, sem er 11,2%.
Verkalýðsfélag Akraness metur upphafshækkun samningsins 17,5% að teknu tilliti til eingreiðslu sem félagið samdi sérstaklega um við fyrirtækið. Án eingreiðslu hækki starfsmenn frá tæpum 30.000 til 35.000 króna á mánuði á fyrsta ári.
Samningurinn gildi frá 1. janúar 2011 og með eingreiðslu og afturvirkni samningsins fái starfsmenn allt að 500.000 króna greiðslu með næstu útborgun. Auk taxtahækkunar séu gerðar breytingar á bónuskerfinu í nýja samningnum.