Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á bloggvef sínum, að þingmennirnir þrír, sem gengið hafa úr þingflokki Vinstri grænna, þekki eiginlega ekki annað úr fyrri þingstörfum sínum en viðvarandi flokkadrætti.
„Öllum þremur virðist þeim líða best úti í horni, sem ofsóttum píslarvottum, og eru því vönust að taka sjálfkrafa afstöðu á móti sérhverri niðurstöðu sem meirihluti þingflokksins hefur komist niður á við þá erfiðu siglingu um raunsævi sem Vinstrigrænir hafa haft að hlutskipti undanfarin tvö ár," segir Mörður.
Hann segist óska þeim Ásmundi Einari Daðasyni, Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur góðs gengis við það verkefni að stofna nýjan þingflokk.
„Þingmennirnir þrír segjast ekki vera farnir úr gamla flokknum sínum og þessvegna er alveg sjálfsagt að heiti nýja þingflokksins beri eitthvert svipmót þeirrar fortíðar. Hvernig væri að kalla nýja þingflokkinn bara Vinstri-móti?" segir Mörður.