Samninganefnd Alþýðusambands Íslands ákvað á fundi nú eftir hádegi að beina því til aðildarsambanda og félaga að vísa kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara og setja allan þrýsting á um að tryggja launahækkanir á þessu ári.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að þolinmæði launþegahreyfingarinnar sé að bresta. Það liggi fyrir að Samtök atvinnulífsins hafni því að gera samning til eins árs. SA segist vilja fara atvinnuleiðina en hafni þriggja ára samningi, nema lausn fáist í málefnum sjávarútvegsins.
„Það er alveg sama hvar okkur ber að garði. þeir hafna því að semja,“ segir Gylfi. „Þolinmæðin er alveg á þrotum. Atvinnurekendur setja okkur í þá stöðu að það þýða engin rök, því þeir tala bara í hring,“ segir Gylfi og bætir við að þá sé eina ráðið að beita aflinu.
Í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins í dag segir, að samtökin vinni enn að gerð kjarasamninga til þriggja ára. Samningaviðræðum hafi ekki verið slitið og hafa aðilar rætt saman þótt tímabundið hlé hafi verið gert á formlegum fundum fyrir páska.