Ákveðið að hætta við að álykta

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Ómar Óskarsson

Til stóð að annar fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins, sem fram fór í dag, myndi senda frá sér ályktun um stöðu umsóknarinnar um aðild að sambandinu líkt og fyrsti fundur nefndarinnar gerði í október síðastliðinn. Hins vegar var hætt við það á síðustu stundu þar sem ekki var einhugur um efni fyrirhugaðrar ályktunar.

„Það var bara niðurstaðan á fundinum að vera ekki að álykta neitt sérstaklega. Málið kom ekki einu sinni til umræðu. Það var búið að vinna ákveðin drög að ályktun sem bæði þingmenn okkar og þingmenn á Evrópuþinginu voru búnir að hafa til skoðunar. En við fórum aldrei svo langt á fundinum, við vorum með fullt af öðrum málum sem við vorum að ræða um og niðurstaðan varð sem sagt sú að vera ekki að álykta neitt á þessum fundi,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og annar formanna sameiginlegu þingmannanefndarinnar.

Árni segir að fulltrúar Íslands hafi fengið drög að ályktuninni í hendur frá Evrópuþinginu um miðjan apríl og engar athugasemdir hafi borist við drögunum frá þeim „í sjálfu sér“. Hins vegar hafi komið breytingartillögur frá fulltrúum Evrópuþingsins í þingmannanefndinni sem hafi þó ekki verið alfarið í samræmi innbyrðis. Þá hafi verið uppi þau sjónarmið innan nefndarinnar að ekki yrði sátt um ákveðin atriði í drögunum innan hennar.

„Það var ekki alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna um þær. Síðan var það þannig hjá okkur að það voru mismunandi skoðanir á því hvort menn ættu að vera að álykta og hversu mikið þannig að það varð niðurstaða okkar formannanna, mín og Gallagher, að leggja það ekki til,“ segir Árni Þór.

Þingmenn Íslands og ESB funda öðru sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert