Bílastæðagjald hækkað um 50%

mbl.is/Ómar

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), segir að verðskrá Icepark, sem reki langtímabílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hafi hækkað um tæplega 50% þann 15. apríl sl. 

Á vef FÍB segir að gjald fyrir 10 daga afnot af langtímabílastæði sé nú 7.400 kr., en hafi áður kr. 5.010 kr. fyrir 10 daga samkvæmt upplýsingum starfsmanns Icepark.  

„Gjaldið hefur því verið hækkað um tæplega 50% á einu bretti! Það er ljóst að vertíð ferðalaga til útlanda er að hefjast og líklegt að margir munu ætla að geyma bíla sína á umræddum bílastæðum.  Það er því ástæða til að vekja athygli bíleigenda á ósvífinni hækkun Icepark á leigu fyrir langtímabílastæði og öðrum valkostum í þessu sambandi,“ segir FÍB.

Þá segir að fréttavefur FÍB hafi sett sig í samband við Icepark ehf. nú í morgun til að kalla eftir skýringum fyrirtækisins á þessari miklu hækkun.

„Sá sem fyrir svörum varð vildi engar upplýsingar gefa um forsendur hækkunarinnar. Hann neitaði ennfremur að gefa upp hver hann sjálfur væri og hvaða stöðu hann gegndi innan fyrirtækisins og þaðan af síður hver væri framkvæmdastjóri eða forstjóri og hvar og hvernig hægt væri að ná í hann en endurtók í sífellu að við gætum sent tölvupóst á icepark@icepark.is. Síðan sleit þessi talsmaður Icepark ehf samtalinu með því að leggja á,“ segir FÍB.

Mbl.is setti sig í samband við Icepark vegna málsins. Starfsmaður fyrirtækisins vísaði blaðamanni til að leita skýringa hjá Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi. Von er á svari frá Isavia. 

Nánar á vef FÍB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert