„Við höfum unnið að því mánuðum saman að koma kjarasamningum á. Það er greinilega ekki að ganga. Ef ekki fer að leysast úr hlutunum fer væntanlega að styttast í að draga þurfi fram verkfallsvopnið,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, um það öngstræti sem kjaraviðræður eru í.
„Við erum alveg hættir að skilja hvert Samtök atvinnulífsins eru að fara að öðru leyti en því að þau telja sig vilja stefna að lengri tíma samningi, en svara því jafnharðan að þau geti ekki og vilji ekki gera samning. Það er staðan sem við erum að glíma við,“ sagði Sigurður í gærkvöldi.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir „vandræðaganginn“ hjá SA vegna fiskveiðistjórnunarmála „óþolandi“. Björn undirbýr aðgerðir og á með því við verkfall.