Drög að ályktun harðlega gagnrýnd

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrir miðju.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrir miðju. Ómar Óskarsson

Samkvæmt heimildum Mbl.is gerðu íslenskir þingmenn í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins (ESB) alvarlegar athugasemdir við drög að ályktun sem til stóð að nefndin sendi frá sér á öðrum fundi sínum sem haldinn var í dag. Þóttu drögin, sem samin voru í Evrópuþinginu, mjög ámælisverð af ýmsum ástæðum og var sú ákvörðun tekin vegna óeiningar um drögin að nefndin sendi ekki frá sér ályktun í tilefni fundarins.

Þannig munu meðal annars hafa komið athugasemdir við drögin að ályktun frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Ólöfu Nordal, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Þau Guðlaugur, Ólöf og Gunnar Bragi eru öll varamenn í nefndinni. Gunnar komst þó ekki á fundinn en sendi þingmannanefndinni tölvubréf þar sem hann gagnrýndi fjölmörg atriði í drögunum harðlega.

Hörð gagnrýni á drögin

Í bréfinu, sem Mbl.is hefur undir höndum, sagði Gunnar Bragi meðal annars að það ferli sem í gangi væri í kjölfar umsóknarinnar um aðild að ESB væri engan veginn í samræmi við það umboð sem veitt hefði verið af Alþingi. Þannig væri ekki lögð áhersla á að láta reyna á meginhagsmuni Íslands heldur gert ráð fyrir að taka fyrst fyrir „létta“ kafla í viðræðunum við sambandið. Þá væri mikil áhersla greinilega lögð á „innleiðingu sameiginlegra reglna, að því er virðist til að flýta ferlinu.“

Gunnar sagði að ljóst væri samkvæmt drögunum að áform ríkisstjórnarinnar um sameiningu ráðuneyta væri hluti af aðlögunarferlinu að ESB. Ekki væri hægt að fagna þeim breytingum eins og gert væri ráð fyrir í drögunum frekar en ferlinu sem slíku. Einnig væri ljóst að svonefnd 20/20 áætlun ríkisstjórnarinnar væri tilkomin vegna ferlisins miðað við drögin og gagnrýndi hann að áætlunin hefði ekki verið kynnt til sögunnar af stjórnvöldum sem slík.

Þá sagði Gunnar vafamál hvort ástæða væri til þess að hæla Schengen-samstarfinu um afnám innri landamæragæslu sem Ísland er aðili að ásamt Noregi, Sviss og ríkjum ESB líkt og gert væri í drögunum. Ennfremur væri það einkennilegt ef ætlunin væri að álykta með ESB um stöðu íslensks efnahagslífs í ljósi þess að sambandið hefði lagt sig fram við að skaða það með þvingunum í Icesave-málinu.

Þá væri viðurkenning á mikilvægi sjávarútvegs og landbúnaðar fyrir Íslendinga engan veginn nægjanleg. Orðalag um að fundnar verði lausnir í þeim efnum sem komi til móts við alla aðila bendi ekki til þess að ætlunin sé að standa vörð um þessar tvær atvinnugreinar. Staðfest væri auk þess í drögunum það sem haldið hefði verið fram að unnið væri „að skipulagsbreytingum innan stjórnsýslunnar svo hún verði tilbúin ef til inngöngu kemur.“

Ákveðið að hætta við að álykta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka