Hrefnuveiðar að hefjast

mbl.is

Hrefnuveiðar hófust í morgun en hrefnuveiðibáturinn Hrafnreyður KÓ-100 hélt þá af stað frá Hafnarfjarðarhöfn til veiða í Faxaflóa. Til hafði staðið að hann legði af stað fyrr en því hafði verið frestað til þessa vegna veðurs.

Vonast er til að fyrsta hrefnan veiðist næsta sólarhringinn en það mun marka formlegt upphaf hrefnuveiðitímabilsins sem síðan stendur í sex mánuði. Gert er ráð fyrir að Hrafnreyður muni veiða megnið af þeim hrefnum sem veiddar verða í ár.

„Við erum úti í Faxaflóa fyrir utan 12 mílurnar, okkur er skylt að gera það. Það hafa alltaf verið  þrjú svæði í flóanum þar sem er sérstaklega mikið af hrefnu og við höldum okkur aðallega við þau,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf. sem gerir út Hrafnreyði KÓ-100. Hann segir að ef allt gangi að óskum þá verði fyrsta hrefnan komin inn í vinnslu hjá fyrirtækinu í fyrramálið og síðan í verslanir daginn eftir.

Aðspurður segir Gunnar að markaðurinn innanlands fyrir hrefnukjöt sé alltaf að stækka og hafi smám saman verið að byggjast upp á undanförnum árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert