Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins (ESB) vegna umsóknarinnar um aðild að sambandinu fundaði öðru sinni í dag en fyrsti fundur nefndarinnar fór fram í október síðastliðnum. Fundurinn fór að þessu sinni fram annars vegar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og hins vegar í Hellisheiðarvirkjun og var honum stýrt af írska Evrópuþingmanninum Pat the Cope Gallagher og Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formanni utanríkismálanefndar Alþingis.
Rætt var um samskipti Íslands og ESB í ljósi umsóknarinnar um aðild að sambandinu í Þjóðmenningarhúsinu og fluttu Bálint Ódor, fulltrúi ráðherraráðs ESB, Timo Summa, sendiherra sambandsins á Íslandi og fulltrúi framkvæmdastjórnar þess, og Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, ávörp.
Þá var samkvæmt tilkynningu frá Alþingi rætt m.a. um fiskveiðar, landbúnaðarstefnur Íslands og ESB og viðbrögð við yfirstandandi fjármálakreppu á Íslandi og innan sambandsins. Í Hellisheiðavirkjun héldu sérfræðingar á sviði orkumála erindi og var rætt um endurnýjanlega orku á Íslandi og í ESB.
Næsti fundur sameiginlegu þingmannanefndarinnar verður haldinn í Evrópuþinginu í Brussel í byrjun október.
Fundinn í dag sátu:
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Pat the Cope Gallagher, þingmaður á Evrópuþinginu frá Írlandi.
Paul Rübig, þingmaður á Evrópuþinginu frá Austurríki.
Indrek Tarand, þingmaður á Evrópuþinginu frá Eistlandi.
Søren Bo Søndergaard, þingmaður á Evrópuþinginu frá Danmörku.
Cristian Dan Preda, þingmaður á Evrópuþinginu frá Rúmeníu.