Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að löggjöf og aðgerðir stjórnvalda vegna ólögmætra gengislána hafi byggst á þeim vaxtaútreikningum sem hefðu komið fram í dómum Hæstaréttar á sínum tíma.
Það sé hins vegar hið besta mál að Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega og fleiri ætli að láta reyna á réttarstöðu sína samkvæmt Evrópurétti.
Kvörtun vegna aðgerða stjórnvalda í kjölfar gengislánadómanna svonefndu hefur verið sent til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.
Árni Páll lítur svo á að kvörtunin til ESA beinist fyrst og fremst að því sem fram hafi komið í dómum Hæstaréttar þegar hann dæmdi gengislánin ólögmæt. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sett fram með skýrum hætti. Lagasetning Alþingis í kjölfar hæstaréttardómanna hafi beinlínis byggt á því fordæmi sem Hæstiréttur hefði þar með sett um endurútreikning ólögmætra gengislána. „Afleiðing þeirrar lagasetningar var að um 50 milljarðar voru fluttir frá fjármálafyrirtækjum til heimila í landinu,“ sagði Árni Páll í samtali við Morgunblaðið.
Kæran til ESA lýtur einnig að því að verðtrygging lána brjóti gegn grundvallaratriðum í Evrópurétti.
Árni Páll benti á að þegar rætt væri um að verðtryggingin væri ósanngjörn gleymdist oft að við efnahagshrunið hér á landi hefði komið gríðarlegt verðbólguskot. „Ef lánin hefðu ekki verið verðtryggð hefðu þau væntanlega borið óverðtryggða vexti sem væntanlega hefðu líka rokið upp úr öllu valdi,“ sagði hann.
Verðbólgan í kjölfar hruns krónunnar hefði skapað stærsta vandann fyrir lánþega.