Lögmætt markmið neyðarlaga

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur segir í úrskurðum, sem kveðnir voru upp í dag, að telja verði að með setningu neyðarlaganna svonefndu í október 2008 hafi verið stefnt að lögmætu markmiði, að forða ríkinu frá yfirvofandi greiðsluþroti og samfélaginu frá efnahagshruni. 

Fjölskipaður héraðsdómur skar í dag úr um að innstæður í Icesave reikningum skuli teljast forgangskröfur í  þrotabú Landsbankans. Með þessu staðfesti héraðsdómur neyðarlögin svokölluðu, sem kváðu á um forgang innstæðna í þrotabú fjármálastofnana.

Í dómunum segir, að neyðarlögin hafi verið sett með það að markmiði að tryggja almannahagsmuni og í því skyni að endurreisa fjármálalegan stöðugleika.  Um leið hafi verið ætlunin að viðhalda trausti einstaklinga og fyrirtækja á því að innstæður þeirra yrðu tryggðar og að bankastarfsemi yrði áfram haldið gangandi.

Með því hafi verið komið í veg fyrir áhlaup á bankana og samhliða tryggð virkni bankakerfisins, sem hafi verið nauðsynleg forsenda þess að ekki yrði hér efnahagslegt hrun.

Segir í úrskurðunum að þá verði  og að telja að forgangsákvæðið hafi verið óhjákvæmilegt til að tryggja að ríkið gæti staðið undir þeirri ábyrgð á innstæðum sem bæði forstæðisráðherra og ríkisstjórn hafði áður lýst yfir að gilti um innstæður, jafnt innlendra sem erlendra aðila.

„Samkvæmt því verður á það fallist með varnaraðilum að brýna nauðsyn hafi borið til að velja þessa leið til að forða ríkinu frá yfirvofandi greiðsluþroti og samfélaginu frá efnahagshruni. Helguðust aðgerðir ríkisvaldsins þannig augljóslega af ríkum almannahagsmunum, til verndar ótilgreindum hópi innstæðueigenda, þótt jafnframt hafi þær um leið beinst að öllum eignum af tilteknu tagi, þ.e. almennum kröfum. Í þessu ljósi verður að telja að með setningu neyðarlaganna hafi verið stefnt að lögmætu markmiði. Þá verður og að telja, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru við umrædda lagasetningu, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að aðgerðir þessar hafi gengið lengra en brýna nauðsyn bar til í því skyni að ná því markmiði að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni og tryggja þar með hag hins almenna borgara," segir í úrskurðunum, sem kveðnir voru upp í dag.

Er það síðan niðurstaða héraðsdóms, að ekki hafi verið sýnt fram á, að neyðarlögin séu í andstöðu við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar,  samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu eða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert