Plöntum sem stolið var úr blómakerjum utan við veitingastaðinn Hafið bláa við Ölfusá hefur verið skilað.
Fram kemur á Facebook síðu veitingastaðarins að „herramaðurinn“ hafi skilað plöntunum ásamt afsökunarbeiðni á fíflaganginum í sér, eins og hann orðaði það.
„Afsökunarbeiðni tekin góð og gild og hann lofar að gera þetta aldrei aftur,“ segir á Facebook síðu Hafsins bláa. Eins og greint var frá á Mbl.is á laugardag var vorblómum stolið rétt fyrir opnun veitingastaðarins á föstudaginn langa. Myndir af þjófnum ásamt bílnúmeri á Porsche Cayanne jeppa sem þjófurinn ók náðust í öryggismyndavél og óskaði eigandi Hafsins bláa, Guðni B. Gíslason, eftir því að plöntunum yrði skilað og þá yrði málið látið niður falla.
Svo virðist sem tekist hafi að höfða til samvisku þjófsins sem skilaði plöntunum í gær.