Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi, segir að sú gjaldskrárhækkun sem hafi tekið gildi 15. apríl sl. á langtímabílastæðum nemi 27% en ekki 50% líkt og Félag íslenskra bifreiðaeigenda haldi fram.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að það hafi verið orðið tímabært að hækka gjaldskrána. Hún hafi síðast verið hækkuð árið 2006. Um sé að ræða 27% hækkun og hún tengist vísitöluhækkunum.
Hún segir að fyrir breytingu hafi einn dagur kostað 630 kr. Nú kosti
dagurinn 800 kr. og fyrstu sjö dagarnir 5.600 kr. sem sé 27% hækkun.
Hjördís segir að í þessum efnum sé miðað við verðlagið í Reykjavík.
FÍB gagnrýndi hækkunina harðlega og reiknaði út 10 daga og skv. þeirra útreikningi nam hækkunin tæpum 50%.
Hjördís segir að hafi reynst nauðsynlegt að leiðrétta gjaldskrána. Nú kosti hver dagur 800 kr. fyrstu sjö dagana, sem fyrr segir. Næstu sjö daga á eftir hækki gjaldið um 600 kr. dag hvern og í þriðju vikunni um 400 kr. á dag.
Samkvæmt gömlu gjaldskránni kostaði vikan 4.410 kr. Eftir sjö daga hækkuðu næstu dagar á eftir um 200 kr. Að sögn Hjördísar var nauðsynlegt að gera lagfæringu á gjaldskránni. Hún segir að tekið hafi verið mið af ferðalögum Íslendinga í þessu sambandi, þ.e. lengd ferðanna.
Hún segir ennfremur að Isavia hafi ákveðið að fara ekki sömu leið og Norðmenn og Danir. Þar séu menn rukkaðir um tvær vikur eftir sjö daga og eina klukkustund á bílastæðum við flugvellina.
Einnig voru gerðar breytingar í tengslum við skammtímastæðin. Nú kostar ein klukkustund 150 kr. en áður voru ökumenn rukkaðir um 110 kr. fyrir 50 mínútur. Hún bendir á að þessi breyting tengist einnig vísitöluhækkunum.
Aðspurð segir Hjördís að það hafi ekki verið í boði að hækka ekki gjaldskrána.
Þá viðurkennir hún að Isavia hefði mátt standa betur að því að kynna gjaldskrárhækkunina. „En það hefði örugglega mátt gera betur í að kynna þetta við drögum ekkert dul á það,“ segir Hjördís.