Talsmaður írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair gefur lítið fyrir niðurstöður danskra og íslenskra vísindamanna um að full ástæða hafi verið til að hafa áhyggjur af flugöryggi í Evrópu vegna ösku sem barst frá eldgosinu í Eyjafjallajökli á síðasta ári.
Forsvarsmenn Ryanair gagnrýndu harðlega ákvörðun evrópskra flugmálayfirvalda að stöðva flugumferð í stærstum hluta Evrópu í fyrra vegna gossins.
Á vefnum Air & Business Travel News er haft eftir Stephen McNamara, upplýsingastjóra Ryanair, að hann spyrji sig hvers vegna flugfélög í Alaska eða Suðuaustur-Asíu fái að starfa óhindrað þrátt fyrir eldgos á þeirra svæðum, með því að marka 30-50 km öryggissvæði umhverfis eldfjöll, en á síðasta ári hafi loftrými verið lokað í allt að 5 þúsund kílómetra fjarlægð frá Eyjafjallajökli.
Hann segir, að engar vísbendingar hafi verið um eldfjallaösku en fullt af vísbendingum um vísindalegt klúður og skrifræði.
„Þessari skýrslu var augljóslega ætlað að klóra yfir vandræðagang þessara vísindamanna," hefur vefurinn eftir McNamara, „og stjórnvalda sem klúðruðu málum algerlega þegar stærstum hluta loftrýmisins yfir Evrópu var lokað í apríl og maí 2010 þegar engin hætta steðjaði að flugumferð nema yfir Íslandi."
Frétt abtn.co.uk