Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður Samtaka lánþega, hefur sent Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, opið bréf vegna þeirra ummæla ráðherrans að aðgerðir vegna ólögmætrar gengistryggingar megi rekja til dóma Hæstaréttar.
Spyr Guðmundur Andri m.a. í bréfinu hver beri ábyrgð á því fjárhags- og eignatjóni sem fyrirtæki og heimili hafi orðið fyrir vegna ólögmætra innheimtuaðgerða fjármálastofnanna sem hafi farið fram í trássi við dreifibréf Fjármálaeftirlitsins, ákvæði laga og nú, niðurstöðu dómstóla.
Þá er spurt hvað efnahags- og viðskiptaráðherra ætli að gera til að snúa til baka þá eignaupptöku og bæta fyrir það tekjutap sem fyrirtæki hafi orðið fyrir vegna vörslusviptinga á tækjum sem sannanlega voru með fjármögnunarleigusamninga sína í skilum.