Varasamur vegur fyrir vestan

Mynd af veginum frá því í fyrrasumar.
Mynd af veginum frá því í fyrrasumar. mynd/Sigrún Davíðsdóttir

Vegurinn á milli Bjarkalundar og Patreksfjarðar er í afar slæmu ástandi og er nánast ekki ökuhæfur þessa dagana. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á Patreksfirði stendur til að laga veginn í fyrramálið, svo framarlega sem veður leyfir.

„Þessir malarkaflar verða afar varasamir í þessari bleytutíð. Frostið er að fara úr jörð og það er því miður fátt hægt að gera,“ segir Magnús Valur Jóhannsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni í Borgarnesi. Hann segir að þetta gerist á hverju vori

„Á leiðinni á milli Bjarkalundar og Patreksfjarðar eru tveir langir malarkaflar. Annar er í Gufudalssveit og umbætur á þeim vegi eru í frosti vegna dóms um að ekki megi leggja veg um svokallaðan Teigsskóg. Vestar er annar malarkafli á milli Vattarfjarðar og Kjálkafjarða. Hann er nú í umhverfismati og stefnt er að því að uppbygging á þeim vegi hefjist í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta,“ segir Magnús Valur.

Hann segir að reiknað sé með því í nýrri vegaáætlun að verja þremur milljörðum í þá framkvæmd.

En hvers vegna er ekki reynt að fyrirbyggja að vegirnir verði svona slæmir? 

„Það hefur lengi staðið til að byggja þarna nýjan veg. Þegar svo háttar, þá er oft tilhneiging til að kosta ekki miklu við gömlu vegina,“ segir Magnús Valur. „Og síðan hafa komið þarna upp mál sem hafa valdið því að framkvæmdir hafa tafist. En við munum reyna að hafa þessa vegi eins góða og kostur er miðað við þá peninga sem við höfum.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert