Vísa ábyrgð á samgönguyfirvöld

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti ályktun á fundi í kvöld þar sem ábyrgð á núverandi ófremdarástandi í samgöngumálum eyjanna er alfarið vísað á samgönguyfirvöld.

Krefst bæjarstjórnin þess að tafarlaust verði allra leiða leitað til að tryggja að Landeyjahöfn veiti þá þjónustu sem henni sé ætlað.   

Í ályktuninni er lýst  þungum áhyggjum af stöðu mála í Landeyjahöfn.  „Lokun hafnarinnar í vetur hefur valdið samfélaginu í Vestmannaeyjum og víðar á suðurlandi gríðarlegum búsifjum.  Fjárhagslegt tjón samfélagsins nemur hundruðum milljóna og jafvel milljörðum. Öllum má ljóst vera að jafnvel þótt höfnin opnuð á næstu dögum þá hefur þar með eingöngu verið sett undir lekann.  Verði ekki gripið til ráðstafna mun höfnin lokast á ný næsta haust," segir í ályktuninni.

Er krafist svara frá samgönguyfirvöldum um til hvaða úrræða verði gripið til að ljúka framkvæmdum við Landeyjahöfn þannig að frátafir á ársvísu verði ekki meiri en 5 til 10%.  „Fyrr er Landeyjahöfn ekki fullbyggð."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert